131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:49]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar Framsóknarflokkurinn byrjar að kveða öfugmælavísurnar er sumum skemmt. Þannig hét það á sínum tíma þegar pósthúsum var lokað víða um landið að menn væru að efla og bæta póstsamgöngur og póstkerfið. Hið sama er upp á teningnum nú. Verið er að selja Símann til þess að bæta dreifikerfið og við vitum að formúlan sem á að nota er þessi: Einkavæðum það sem gefur af sér arð, látum skattborgarann um hitt. Nú á að vísu að nota söluhagnaðinn til þess að byggja upp dreifikerfið, en hv. þm. var að minna okkur á annað fyrir stundu, að því starfi lyki aldrei. Það væri í stöðugri þróun. Hins vegar lyki öðru, ráðstöfun þeirra fjármuna sem salan gæfi í aðra hönd. Hv. þm. er því kominn í örlitla mótsögn.

Varðandi hitt, að formbreytingin yfir í hlutafélag hafi verið svo mjög til hagsbóta hef ég miklar efasemdir um. Símakerfið á Íslandi var ódýrasta símakerfið í öllum heiminum, bæði almenni síminn og GSM-síminn, áður en Landssímanum var breytt í hlutafélag. Ég þekki ekki samanburðartölur og væri fróðlegt að skoða þær, en þannig var þetta. Það er staðreynd.

Svo vil ég benda hv. þm. á að fróðlegt væri að menn kynntu sér söguna með hliðsjón af vaxtaþróun í landinu. Hér hafa nefnilega áður verið lágir vextir. Einu sinni voru neikvæðir vextir, ekki er ég að mæla því bót, síður en svo, en svo voru tímabil þar sem vextir voru mun lægri en núna. Ég veit að ekki var búið að einkavæða neina banka á þeim húsnæðislánum sem ég tók upp á 2%. (Forseti hringir.) Þá var slíka vexti að fá í bankakerfinu og ekki búið að einkavæða neina banka.