131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:42]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Í upphafi þessarar fyrirspurnar hv. þm. vil ég minna á að málefni heyrnarlausra og túlkaþjónustunnar hefur verið í skoðun milli nokkurra ráðuneyta í allnokkurn tíma eins og hv. fyrirspyrjandi fór yfir og unnið hefur verið að því að finna lausnir þótt niðurstaða hafi ekki fengist fram til þessa. Að frumkvæði menntamálaráðuneytisins í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu hinn 11. mars 1999 var unnið ötullega að því að kortleggja stöðu íslenska táknmálsins hér á landi og samanburður gerður í því efni við löndin í kringum okkur. Má í því sambandi nefna lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, lög um málefni fatlaðra, lög um réttindi sjúklinga, lög um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar auk ákvæða í lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla er heyrnarlausum tryggður réttur til að öðlast menntun í táknmáli heyrnarlausra og er tekið tillit til þeirra þarfa í því sambandi. Til að styrkja þennan rétt heyrnarlausra var einnig nauðsynlegt að fjölga táknmálstúlkum og því ákveðið að taka upp kennslu í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands.

Þá má minna á að átak hefur verið gert í að auka textun á sjónvarpsefni fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta og til þess varið sérstökum fjármunum. Í þeim efnum má þó alltaf gera betur en óhætt er að segja að menn hafi vaknað til vitundar um mikilvægi þeirrar þjónustu.

Ég átti nýlega mjög góðan og upplýsandi fund með fulltrúum Félags heyrnarlausra þar sem málefni þeirra voru rædd og þá ekki síst mikilvægi þess að tryggja heyrnarlausum túlkaþjónustu vegna daglegs lífs svo sem vegna fasteignaviðskipta eða annarra viðskipta, eða samskipta þar sem sérfræðiþjónustu þyrfti til, túlkaþjónustu vegna starfsmannafunda og ýmissa annarra þátta sem falla fyrir utan opinbera þjónustu þar sem túlkaþjónusta er tryggð eða á að vera tryggð lögum samkvæmt á kostnað hins opinbera eins og t.d. á sjúkrastofnunum eða vegna samskipta við stjórnvöld eða dómstóla. Á þessum fundi var bent á að á hverju ári kæmu fjármunir frá stjórnvöldum vegna þessarar þjónustu sem væru yfirleitt búnir um mitt ár. Óljóst væri hvaðan þessir fjármunir fengjust og skipulag vantaði um ráðstöfun þeirra. Til að mæta þessum þörfum töldu fulltrúar félagsins á fundinum í síðustu viku að 10 millj. kr. þyrfti árlega til að leysa brýna þörf heyrnarlausra fyrir túlkaþjónustu í daglegu lífi. Í framhaldi af þeim fundi hefur menntamálaráðuneytið skoðað með hvaða hætti væri unnt að koma til móts við óskir Félags heyrnarlausra. Mér er það mikil ánægja að geta sagt frá því hér að ákveðin lausn hefur verið fundin sem felur í sér breytingar á reglugerð og gjaldskrá Samskiptastöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra á þann veg að þessum þörfum verður mætt og fjármunir til þess verða tryggðir í fjárlögum. Nánari útfærsla verður að sjálfsögðu gerð í samráði við Félag heyrnarlausra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun þá tillögu mína að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fái 2 millj. kr. í fjárveitingu vegna túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa í daglegu lífi vegna yfirstandandi árs. Í fjárlagafrumvarpinu 2005 eru veittar 4 millj. kr. til Samskiptamiðstöðvar vegna þeirrar túlkaþjónustu sem hér um ræðir en þeir fjármunir voru áður fengnir af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar á ári hverju til að mæta þessum þörfum. Til að fullnægja þörfinni, samkvæmt mati Félags heyrnarlausra og ráðuneytisins, vantar því 6 millj. kr. fyrir árið 2005 sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun að gert yrði ráð fyrir í fjárlögum næsta árs. Miðað er við að árlega verði 10 millj. kr. varið á fjárlögum til þessarar þjónustu. Ég vil sérstaklega geta þess að ég átti nú fyrir klukkustund mjög ánægjulegan fund með formanni Félags heyrnarlausra, framkvæmdastjóra félagsins, lögmanni félagsins, ásamt forstöðumanni Samskiptamiðstöðvarinnar þar sem við fórum yfir þessi mál og ég met það svo að á þessum fundi hafi verið almenn ánægja með hvernig við höfum fundið úrlausn á akkúrat þessu efni. Vona ég, herra forseti, að með þessari ákvörðun hafi tekist með farsælum og varanlegum hætti að tryggja heyrnarlausum rétt til táknmálstúlkunar í daglegu lífi.