131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég segi ekki annað en að nú er ástæða til að fagna. Hæstv. menntamálaráðherra hefur gefið tímamótayfirlýsingu, yfirlýsingu sem við í þessum sal og ekki síður heyrnarlausir hafa beðið eftir að gefin yrði í tíu ár. Því er ekki ástæða til annars en þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skörungsskapinn, að ganga í málið og fá ríkisstjórnina til að samþykkja að á næsta ári verði settar 10 millj. kr. í túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa. Ég segi fyrir mína hönd og okkar sem höfum barist í málefnum heyrnarlausra undanfarin ár að það var kominn tími til.

Þetta er skörulegur málflutningur og skörulega að verki staðið hjá hæstv. menntamálaráðherra. Hún er að sjálfsögðu búin að eyðileggja fyrir mér ræðuna. Það sem stendur á blaðinu er náttúrlega ekki viðeigandi því að þar voru aðeins skammir yfir seinagangi og doða ríkisstjórnarinnar í málefnum heyrnarlausra síðastliðin tíu ár. Það var ástæða til að skamma ríkisstjórnina fyrir fimm mínútum en ég segi: Guð láti gott á vita, hælum henni fyrir skörungsskapinn og tökum sameiginlega á málefnum heyrnarlausra sem eiga það skilið að málum þeirra verði kippt í liðinn í eitt skipti fyrir öll og þeir fái túlkaþjónustu sem heimilar þeim aðgang að heimi okkar sem erum heyrandi.