131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:49]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Það er heldur betur búið að eyðileggja fyrir manni ræðuna en það voru afar góð tíðindi sem komu í máli hæstv. menntamálaráðherra.

Ég vil þó bæta því við að alltaf má gera gott betra. Fleiri málefni heyrnarlausra þurfa athugunar og skoðunar við. Þar ber kannski fyrst að nefna textun, þingmál sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fyrir Alþingi áður og munum gera aftur í haust.

Það skiptir hins vegar afskaplega miklu máli, varðandi hinar góðu fréttir hæstv. menntamálaráðherra, að eftirfylgnin verði til staðar. Það verður að tryggja að þessum fjármunum verði vel varið, að heyrnarlausir fái félagslega túlkun þegar svo ber undir. Hér séu ekki bara orðin tóm og slæleg vinnubrögð sem ég veit að verða ekki en ég ítreka að eftirfylgnin verður að vera fyrir hendi til að tryggja að fjármunirnir fari inn á góðar brautir.