131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:59]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegur ferill langrar baráttu sem háttvirtur málshefjandi, Rannveig Guðmundsdóttir, rakti áðan í ræðu sinni.

Landsmenn hafa reglulega verið minntir á það hve málefni heyrnarskertra og heyrnarlausra eru í miklum ólestri. Síðasta vor hékk kennsla í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands á bláþræði vegna fjárskorts og nú síðast átti að neita þessum sérstaka hópi fatlaða, heyrnarlausum, um sjálfsagða þjónustu í daglegu lífi.

Það er auðvelt að setja sig í spor foreldris sem þarf að fara með barnið sitt til tannlæknis eða læknis og er bannað að útskýra fyrir barninu hvað er verið að gera við það og hvers vegna. Samtöl milli foreldris og læknis eru bönnuð. Þannig eru aðstæður heyrnarlausra foreldra. Eða að mæta á foreldrafundi og sitja þegjandi með kennaranum þann tíma sem úthlutað er. Þetta eru aðstæðurnar sem fólk hefur verið sett í með nýlegum úrskurði menntamálaráðuneytisins um að heyrnarlausir ættu ekki rétt á endurgjaldslausri túlkaþjónustu í daglegu lífi. En það er gott þegar barátta ber árangur og fólk sér sig um hönd eins og menntamálaráðherra hefur nú gert.

Virðulegi forseti. Við erum ekki að tala um mikið fjármagn til að koma þessum málefnum í sæmilegt horf. Léleg þjónusta við heyrnarskerta er skammarblettur sem tími var kominn til að þveginn yrði af samfélagi sem vill kenna sig við jafnrétti og velferð.

Samfylkingin fór fram á að þessi fundur yrði túlkaður á táknmáli en vegna höfnunar hæstv. forseta missa heyrnarlausir og heyrnarskertir af því að njóta hinna gleðilegu tíðinda sem hæstv. menntamálaráðherra flutti okkur áðan beint í sjónvarpið. Ég vil nota tímann til að óska fötluðum og heyrnarlausum til hamingju með árangurinn af baráttu þeirra.