131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:09]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist hafa töfralausn, að Samfylkingin hefði töfralausn og gæti lækkað matvöruverð um 30% með leið sinni og hv. þm. vitnaði í þetta frumvarp. Ég stóð upp áðan til þess að spyrja hv. þm. hvernig hægt væri að lækka matarverð um 30% með því að lækka virðisaukaskatt um 7%. Það var það sem ég spurði hv. þm. um. Auðvitað er hægt að fara út um víðan völl og tala um allt, allt aðra hluti ef maður vill ekki svara þeim spurningum sem til manns er beint.

En það fyrirkomulag að leyfa andsvör var tekið upp á sínum tíma inn í þingsköp til þess að þingmenn gætu fengið frekari upplýsingar um einstök atriði í ræðu þess þingmanns sem talað hafði. Og áhugi minn beinist sérstaklega að þessu efnisatriði í ræðu hv. þm. hvernig hann getur lækkað matarverð um 30% með því að lækka virðisaukaskatt um 7%. Eða var þessu bara slegið fram svona í leiðinni í trausti þess að menn mundu að vísu heyra þetta en ekki leggja það á sig að spyrja um þetta eða leita eftir frekari upplýsingum?

Nú eiga ýmsir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar eftir að tala hér á eftir. Hv. þm. hefur heimild til að kveðja sér hljóðs aftur. Ég yrði mjög þakklátur ef hann skýrði þetta nánar, því að auðvitað eins og hv. þm. sagði þá munar Íslendinga mikið um ef hægt er að lækka matarverð um 30%. Sá sem býr yfir slíkri töfralausn verður að koma fram með leiðina. Þetta voru mikil orð og stór orð. Hv. þm. er kunnur að því að fara með mikil orð og stór orð.

En þetta er einföld spurning sem ég ber fram. Það eru tvær tölur, 7% lækkun á virðisaukaskatti sem hv. þm. segir að lækki matarverð um 30%.