131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:05]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Björgvin Sigurðsson fjallaði hér um kosningaloforð Framsóknarflokksins varðandi barnabætur. Ég verð að segja að mér finnast þetta einkennilegar alhæfingar hjá hv. þingmanni. Hann vísar í söguna um hvernig Framsóknarflokkurinn hafi staðið sig í þessum málum. Ef við skoðum þróun barnabóta á síðasta kjörtímabili, frá 1999–2003, hækkuðu þær um 37,7%. Við verðum auðvitað að bera þetta saman við eitthvað. Ef einhver samanburður hefur einhverja þýðingu er það samanburður við vísitölu neysluverðs. Hún hækkaði á þessu sama tímabili um 19,7% sem þýðir að barnabætur hafa hækkað nær tvöfalt á við vísitöluna. Ég vil nú biðja hv. þingmann að hafa þessar staðreyndir á hreinu áður en hann fer að úthúða Framsóknarflokknum fyrir að standa ekki við bakið á barnafjölskyldum því að það gerum við svo sannarlega.

Hv. þm. sagði að ekkert væri gert fyrir unga fólkið í þjóðfélaginu. Fyrir utan það sem ég hef þegar sagt vil ég að sjálfsögðu vísa í eitt mesta framfaramál fyrir okkar kynslóð sem er breyting á lögum um fæðingarorlof. Kaupmáttaraukning hefur líka verið mikil og það kemur sér ekki síst vel fyrir ungt fólk.

Ég vil líka segja að flöt skattalækkun, tekjuskattslækkun, er auðvitað góð, til að mynda fyrir unga fólkið sem vinnur mikið á meðan það er að stofna fjölskyldur og hefur þar af leiðandi miklar tekjur. Ég tel að þetta sé kærkominn stuðningur fyrir barnafjölskyldur í landinu.