131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:18]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur ærlega ræðu. Hún viðurkenndi það hér að það væri ekki í skattaprógrammi þessarar ríkisstjórnar að lækka virðisaukaskatt á matvæli á þessu kjörtímabili. Skýrar er ekki hægt að tala í þessum efnum. Hún fór yfir það hér í hverju skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar væru fólgin, þ.e. að lækka tekjuskattinn, hreyfa niður erfðafjárskattinn og leggja af hátekjuskattinn. Þetta eru allt efnisatriði sem má ræða um og þeir stjórnarliðar hafa reynt að færa rök fyrir þó að á hinn bóginn sé alveg ljóst hverjum slíkar lækkanir koma best. Ekki þarf að fara yfir það og rekja það stafróf í þessum ræðustól. Það hefur verið gert með skýrum hætti.

Það veit auðvitað hver einasti maður sem hér er inni að þegar menn ætla að sleppa fyrir horn með því að tala almennt um heildarendurskoðun á virðisaukaskattskerfinu þá eru engir fjármunir fráteknir af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast þar við og lækka álögur í því kerfi. Er það ekki svo? Þurfum við nokkuð að deila um það, hv. þm. Dagný Jónsdóttir? Er það ekki alveg ljóst að peningarnir hafa þegar verið eyrnamerktir í önnur verkefni?

Af því að hv. þingmaður hefur verið býsna ærleg og beinskeytt hér í þingstörfum og talað tæpitungulaust (Gripið fram í.) þá vænti ég þess að hún geti staðfest það hér og nú, svo að við þurfum ekki að velkjast í vafa um það, að ekki er gert ráð fyrir því í skattaprógrammi ríkisstjórnarinnar að lækka verðlag á matvöru gagnvart almenningi í landinu með því að lækka virðisaukaskatt, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, úr 14% í 7%? Ég spyr: Eru einhverjir tæknilegir örðugleikar á því sem við getum hjálpað til með af hálfu ríkisstjórnarinnar sem koma í veg fyrir þetta eða er það svo að hinn pólitíska vilja vantar?

Auðvitað fór það ekkert fram hjá þessum hv. þm. frekar en öðrum hér að sjálfstæðismenn voru með þetta mál efst á baugi í sinni kosningabaráttu en framsóknarmenn ekki. Er því óeðlilegt að álykta sem svo að þarna skilji — ja, ekki segi ég nú himin og haf — en a.m.k. að vík sé milli vina?