131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:24]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. um að við eigum ekki að tala tungum tveim. Ég tel að ég tali mjög skýrt. Það tel ég vera vegna þess að ég er að segja hér frá þeirri vinnu sem á sér stað. Væri það nú kannski ekki frekar ómaklegt ef ég færi að segja hér mína skoðun á því hverju ég teldi að þessi ákveðna nefnd ætti að skila?

Við verðum að binda vonir við að þessi vinna skili okkur einhverju góðu og að hún sé raunsæ. Ég vil því ekki meina að ég sé að tala hér tungum tveimur heldur er þetta alveg skýrt hjá okkur. Við erum með skýra forgangsröðun. Auðvitað skoðum við aðra hluti. Það væri nú kannski frekar dapurt ef stjórnarflokkar mundu ekki framkvæma neitt annað en það sem er í kosningastefnuskrá.

Við vorum t.d. að fjalla hér um túlkaþjónustu í dag. Hún er ekki á kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins og ég var afskaplega stolt af því að minn flokkur skyldi standa að því að veita fjármuni í það verkefni. (Gripið fram í.) Bara svo að ég nefni eitt dæmi vegna þess að öll mál eru mikilvæg.

Ég ítreka það að langtímamarkmiðin eru skýr og við skoðum auðvitað aðra hluti líkt og við höfum ávallt gert.