131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:54]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið gaman að vita hvað hv. þm. ætlaði að segja um vökulögin. Þau voru að vísu samþykkt áður en Sjálfstæðisflokkurinn varð til og þess vegna veit ég ekki nákvæmlega hvað fyrir hv. þm. vakti.

En það er rétt að ég átti skyldmenni hér á Alþingi á þeim tíma og hann sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um vökulögin: „Mér hefur ávallt þótt gott að sofna að loknu dagsverki og segi því já.“

Um hitt get ég sagt að ég hef ævinlega viljað lækka matarskattinn. Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða, stendur einhvers staðar, og það hefur verið svo lengi að ég hef viljað gera það og er útilokað fyrir hv. þm. að finn nokkur ummæli eftir mér sem lúta að öðru.