131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að hv. þm. Halldóri Blöndal er nokkuð brugðið og einhver afturför í gangi hjá þeim skýra manni, svo ég noti aðferðir hans við að fjalla um þingmenn. Hann ber mér það á brýn að ég vilji ganga nærri landbúnaðinum með því að ná fram þeirri lækkun sem Samfylkingin vill ná með því að ganga í Evrópusambandið. Þetta er sérstaklega skemmtilegt vegna þess að ég tók eitt dæmi til marks um lækkun við að ganga í Evrópusambandið. Ég tók tölur frá Noregi og heimfærði þær á Ísland.

Að öðru leyti gekk ræða mín nákvæmlega út á þá skoðun Davíðs Oddssonar að þetta gætum við gert sjálf. Skýrsla Hagfræðistofnunar háskólans benti á og gerði tillögur um að efla markaði. Hún gerir tillögur um að vinna í samkeppnismálunum, auka eftirlitið. Hún gerir tillögur um skoða skatta og skyldur, vörugjöld og álögur. Hún bendir á hvernig við styðjum landbúnaðinn og hvernig megi breyta því.