131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:02]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í ræðu minni að reyna að útskýra hvernig Samfylkingin gæti náð því fram, samkvæmt sinni leið og samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir, að lækka vöruverð um 30%. Það hefur ekkert komið fram um það, hvorki hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur né öðrum sem talað hafa, hvernig nákvæmlega eigi að ná því fram.

Á hinn bóginn hef ég tekið eftir því að í ræðum Samfylkingarinnar hefur mikið verið talað um að hér sé nauðsynlegt að efla samkeppni og auka eftirlit Samkeppnisstofnunar, þótt það sé ekki sagt beinlínis þannig. Segja má að með því sé Samfylkingin hrokkin í gamla farið, vilji allt í einu fara að tala í öðrum dúr um samkeppnislög.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. að virk samkeppni á matvælamarkaði er nauðsynleg til að halda vöruverði niðri og má vera að hv. þm. þyki nokkuð skorta á þá virku samkeppni.