131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:27]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki að því gert að stundum þegar maður hlustar á hv. þm. Pétur Blöndal flytja hér ræður og mál fara að rúlla í höfðinu á manni öfugmælavísurnar frægu. Þetta er sá hv. þm. sem haldið hefur því fram að hátt olíuverð sem nú tröllríður heimsbyggðinni og er að sliga hér útgerð og bíleigendur sem kaupa þurfa olíu og bensín á bíla sína, fótur undir skattheimtu ríkisins sem aldrei fyrr, sé bara af hinu góða og þegar til lengri tíma sé litið muni það hafa góð áhrif á Íslandi.

Hv. þm. sagði að tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar núna um 1% væri leið til þess að losa fólk úr fátæktargildru. Það væri gott ef hv. þm. vildi útskýra fyrir mér hvernig skattalækkun upp á 500 til 1.000 kr. á mánuði losar nokkurn mann úr fátæktargildru sem hann er þegar fyrir í. Ef þetta er svona einfalt eigum við þá ekki bara að gera þessa launþega ríka og hækka þetta um 2.000 kr. Það hlýtur að vera alveg svakalegt skref ef 500 til 1.000 kr. eiga að duga til að losa einhvern sem hefur varla til hnífs og skeiðar úr fátæktargildru. Málið er ekki svona einfalt.

Það mál sem hér liggur fyrir, og ég held að allir sem það skoða geri sér grein fyrir að kemur þeim best sem minnst hafa án þess að við séum að eyða meiri fjármunum úr ríkissjóði en annars væri gert, má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið upp eftir Samfylkingunni í síðustu kosningabaráttu og gert að sínu máli. Maður hlýtur því að spyrja þegar hlustað er á hv. þm.: Styður hann ekki það kosningaloforð og þá stefnu flokksins að lækka skuli matarverð, að lækka skuli virðisaukaskatt á matvæli úr 14% í 7%?