131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:41]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér liggur fyrir frumvarp um að lækka matarskatt um helming sem allir þingmenn Samfylkingarinnar flytja. Frumvarpið var einnig lagt fram á síðasta þingi og var eitt af fyrstu þingmálum Samfylkingarinnar eftir kosningarnar í samræmi við þau loforð sem Samfylkingin gaf kjósendum vorið 2003. Þessi umræða og tillögur um að lækka matarskattinn um helming áttu ákveðna samsvörun einnig í kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins.

Þegar þessi umræða fór fram fyrir einu ári treystu sjálfstæðismenn sér ekki til að styðja frumvarpið af þeirri ástæðu, eins og þeir orðuðu það, að það væri ekki á þeirra forsendum. Þetta sögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að hafa örfáum mánuðum áður sagt að þeir væru sammála því að lækka matarskattinn. Þegar færi gafst á þingi þá gerðu þeir það ekki vegna þess að tillagan kom frá Samfylkingunni.

Það er mjög skrýtið vinnulag sem maður hefur kynnst í þinginu sem nýr þingmaður. Það virðist skipta öllu máli hvaðan tillögurnar koma. Ef tillaga sem stjórnarliðar eru fylgjandi og sammála er borin upp af stjórnarandstöðuþingmanni þá gengur ekki að samþykkja hana. Þetta er vinnulag sem komið hefur mér mjög á óvart.

Núna berast þær fregnir af fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskattskerfinu að hugsanlega sé Framsóknarflokkurinn þrándur í götu hvað það varðar. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom ítrekað til að svara fyrir það en svör hennar voru vægast sagt óljós. Hún taldi það meira að segja fráleitt að hún segði sína skoðun og hvað hún vildi varðandi virðisaukaskattskerfið. Hún benti í sífellu á einhverja vinnu úti í bæ. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem viðkomandi hv. þm. bíður eftir flokkslínunni og þarf því ekki að koma á óvart.

Það er ágætt að fara yfir það hvernig skattaumhverfið hefur breyst undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Segja má að margt sé þjóðsagnarkennt af því sem við heyrum um skattapólitík hér á landi. Til dæmis hafa heildarskatttekjur ríkisins, sem hlutfall af landsframleiðslu, hækkað frá 1995–2001. Þetta þýðir að af hverri krónu sem verður til í þjóðfélaginu þá tekur ríkið til sín stærri hluta en það gerði áður. Þetta er afskaplega einfalt.

Samkvæmt tölum OECD hefur skattbyrði einstaklinga frá árinu 1990 sömuleiðis aukist mest á Íslandi af öllum OECD-ríkjum, að Grikklandi undanskildu. Þetta kann hugsanlega einnig að koma mönnum á óvart en tölurnar og samanburðurinn tala fyrir sig.

Við sem fylgdumst með stjórnmálum síðasta vetrar vitum að strax í fyrra, fyrsta vetur eftir kosningarnar, jók ríkisstjórnin álögur og skatta um 4 milljarða kr., fyrsta árið eftir hið mikla kosningaloforðafyllirí sem Sjálfstæðisflokkurinn fór á fyrir kosningarnar. Það er sem sagt búið að hækka skatta og álögur um 4 milljarða kr. á þessu eina ári.

Það er einnig óþægileg staðreynd fyrir ríkisstjórnina að samneyslan, neysla hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu, hefur aukist um rúm 16% frá árinu 1995–2002. Það kann að koma einhverjum á óvart. Benda má á að meira að segja í svari hæstv. fjármálaráðherra frá síðasta vetri um fjármál hins opinbera staðfesti hann að útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga sem hlutfall af landsframleiðslu, væru hærri nú en t.d. 1991. Báknið er sem sagt stærra núna en árið 1991, þrátt fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja, bankanna o.s.frv.

Ef við tökum bara hlutdeild ríkisins þá eru útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2002, sem svar ráðherra frá því í fyrra lýtur að, svipuð að prósentuhlutfalli og árið 1994. Það þýðir ekki að benda á sveitarfélögin og segja að þau séu ábyrg fyrir auknum umsvifum opinberra aðila. Ríkið hefur einnig verið að auka umsvif sín þrátt fyrir tal um allt annað og alla einkavæðinguna.

Mig langar að koma aðeins inn á barnabæturnar, fyrst menn fóru inn á þær hér áðan. Mig langaði sérstaklega að svara hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur en hún virðist farin, eins og flestir stjórnarliðar, úr salnum. Það má rifja það upp að barnabætur eru núna um 36 þús. kr. á ári. En ef við skoðum það bara á föstu verðlagi þá voru þær árið 1995 um 40 þús. kr. Árið 1988 voru barnabætur 46 þús. kr. á sama verðlagi. Þetta eru samanburðarhæfar tölur, eru á föstu verðlagi. Við sjáum þróunina frá 1988 en þá voru barnabæturnar 46 þús. kr. Árið 1995 voru þær 40 þús. kr. og eru núna 36 þús. kr., þ.e. þessi tegund barnabóta. Samanlagt hafa barnabætur verið skertar um rúma 10 milljarða kr. í tíð núverandi ríkisstjórnar, m.a. með því að láta viðmiðunarfjárhæðir ekki fylgja verðlagsþróun og vegna tekjutengingar barnabóta.

Þetta er ósköp skýrt. Fólk fékk einfaldlega hærri barnabætur árið 1995, en það fær árið 2002 og fleiri fengu slíkar bætur. Nú fá aðeins um 11% einstæðra foreldra óskertar barnabætur og liðlega 3% hjóna. Við sjáum því forgangsröðun þessara ríkisstjórna hvað varðar barnafólk.

Matarskatturinn snertir okkur öll. Að sjálfsögðu þurfa allir að kaupa í matinn. Þess vegna er skattalækkunin sem Samfylkingin leggur til, að lækka matarskattinn um helming, miklu réttlátari og skynsamlegri leið en sú sem ríkisstjórnin ætlar að fara. Samfylkingin er einfaldlega búin að skoða það og reikna hvernig tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar mun snerta ákveðna hópa. Þingmaður með hálfa millj. kr. á mánuði mun t.d. fá um 8 þús. kr. í skattalækkun á mánuði, eða um 100 þús. kr. á ári, en grunnskólakennari fær rúmlega fyrir einum bleyjupakka. Láglaunamaður með 150 þús. kr., fær minna en tvo bíómiða. Við sjáum alveg forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Það þýðir ekkert að þræta fyrir það.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir það bara opinskátt. Hans markmið er ekki að jafna kjörin. Hann hefur önnur markmið. Það er í góðu lagi mín vegna en það er leiðinlegt að þau markmið skuli ráða ríkjum hjá núverandi ríkisstjórn.

Það vita allir Íslendingar, og allar rannsóknir sýna það, að matvælaverð hér á landi er með því hæsta í heimi. Þess vegna skiptir það okkur miklu máli að beita öllum tiltækum ráðum til að reyna að ná því verði niður. Við þurfum einhvers konar þjóðarsátt til að ná matvælaverði niður.

Hér hefur verið bent á raunhæfa leið til að lækka matarskattinn. Aðrir hafa bent á að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu muni lækka matvælaverð. Enn aðrir hafa bent á endurskipulagningu í landbúnaðinum og svo mætti lengi telja. Aðalatriðið er að við lækkum matvælaverðið. Þessi leið Samfylkingarinnar mun jafnframt hafa minni áhrif á þenslu en leið ríkisstjórnarinnar.

Hér kom ranglega fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að virðisaukaskattslækkun hefði nákvæmlega sömu þensluáhrif og flöt tekjuskattslækkun ríkisstjórnar. Það er einfaldlega rangt. Menn sjá alveg lógíkina í því. Ef við færum þeim sem minna mega sín, hinum fátækari einstaklingum og fjölskyldufólki, hærra hlutfall af heildarskattalækkuninni mun sá hópur eyða minni hluta af þeirri lækkun í viðbótarneyslu. Annað gildir um hálaunamann, með 800 þús. kr. eða milljón króna manninn, sem fær eina utanlandsferð á mánuði ef farin verður leið ríkisstjórnarinnar. Sá mun geta farið í utanlandsferðina einu sinni í mánuði. Hann mun geta beint þessari skattalækkun í aukna neyslu og það mun hafa þensluhvetjandi áhrif.

Ef við færum stærstan hluta af þessari skattalækkun til þeirra sem hafa minna á milli handanna þá mun sá hópur síður eyða henni í viðbótarneyslu, enda hefur hver króna hlutfallslega hærra gildi fyrir viðkomandi eftir því sem hann er neðar í tekjustiganum.

Að lokum er alveg stórmerkilegt að skoða hin efnahagslegu afrek þessarar ríkisstjórnar. Meðalhagvöxturinn á áratugi Davíðs Oddssonar, frá 1991–2001, er nákvæmlega sá sami og meðalhagvöxtur OECD-ríkjanna. Hann er ekkert meiri. Við erum bara um miðja deild hvað það varðar. Eins og formaður Samfylkingar benti á höfum við einnig færst niður, samkvæmt þeim mælikvarða, á listanum yfir ríkustu þjóðir heims. Þetta er mælt á jafnvirðismælikvarða, eða PPP, þannig að þetta er samanburðarhæft. Við erum neðar á þeim lista en við vorum árið 1990, áður en hæstv. Davíð Oddsson utanríkisráðherra tók við sem forsætisráðherra.

Við sjáum einfaldlega afrekin. Þau segja sína sögu. Skattur einstaklinganna á þessum áratug hefur aukist. Báknið er stærra en nokkurn tímann áður. Við höfum áður óþekkta skattheimtu á láglaunafólk og bótaþegum. Barnabætur eru lægri. Tryggingagjöld eru hærri. Þeir hafa stóraukið skatta á áfengi og tóbaki og sömuleiðis á bifreiðaeigendur, þeir skattar hækkuðu meira að segja síðast í fyrra. Þjónustugjöld eru innheimt í ríkari mæli á nánast öllum sviðum opinberrar þjónustu. Lyfjakostnaður heimila hefur aukist. Við búum við eitt hæsta matvælaverð í heimi. Þetta eru allt staðreyndir sem stjórnarflokkarnir hafa ekki náð að hrekja. Þetta eru allt staðreyndir sem snerta hinn venjulega Íslending, venjulegar fjölskyldur sem búa á þessu landi. Fólk þarf aðeins að átta sig því hvernig forgangsröðin birtist í verkum þessarar ríkisstjórnar. Hún gjörólík því sem stjórnarliðar tala um í fjölmiðlum og hvað þá rétt fyrir kosningar.