131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:52]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Umræða um þetta mál sem við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum og felur í sér lækkun á matarskatti hefur staðið drjúgan dagspart. Ég vil í lok hennar þakka þeim sem tóku þátt í henni og öllum þeim sem studdu málið með góðum óskum og góðum rökum. Hér hefur í reynd enginn tekið til máls sem beinlínis hefur lagst harkalega gegn málinu.

Það var athyglisvert að það kom glöggt fram í umræðunni, t.d. hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, hann teldi að málið væri gott. Kóngur vill sigla, sagði hann, en byr hlýtur að ráða. Sá byr sem nú ræður för er auðvitað byrinn sem blæs úr herbúðum Framsóknarflokksins, vegna þess að hann er í þveröfuga átt. Það liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn stendur í veginum fyrir því að þetta þjóðþrifamál verði samþykkt á hinu háa Alþingi.

Það hefur komið glöggt fram í umræðunum í dag að hér er þverpólitísk samstaða um að lækka matarskattinn verulega en einn flokkur sem kemur í veg fyrir það. Það er Framsóknarflokkurinn. Hann skammast sín greinilega vegna þess að hér er ekki einn einasti þingmaður Framsóknarflokksins í salnum til þess að taka þátt í umræðunni.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, var að sönnu hér fyrr í dag en hún reyndi að skjóta skildi fyrir flokkinn með því að halda fram að í reynd væri það ekki svo að Framsókn legðist þver gegn þessu ágæta máli sem við höfum reifað í dag heldur væri málið í nefnd. Það hefur komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að Framsóknarflokkurinn sættir sig ekki við þá tæknilegu útfærslu sem einföldust er á þessu máli. Það er Framsóknarflokkurinn sem kemur þess vegna í veg fyrir að hægt sé með þverpólitískri samstöðu á þinginu að lækka matarskatt. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir reyndi að skjóta sér á bak við það að fyrirhuguð væri einhvers konar breyting á barnabótum. Það kom vel á vondan. Hv. þm. vissi greinilega ekki af því að hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins og leiðtogi lífs hennar, var að lýsa því yfir í dag við fréttamann að það væri ólíklegt að hreyft yrði við barnabótum fyrir árið 2006 og þó líklega ekki fyrr en 2007. Deginum eftir að hæstv. forsætisráðherra segir við formann Samfylkingarinnar að það eigi eftir að koma í ljós á þessu ári hvernig barnabótum verði hagað og því sé of snemmt um það að segja að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar svipti fótum undan kjarasamningum þá kemur hann í fjölmiðla og segir að það verði engar barnabætur á þessu ári. Hann er með öðrum orðum að staðfesta það sem við sögðum hér í gær.

Svo kemur hv. þm. Dagný Jónsdóttir og fylgist greinilega ekki vel með því hve ört forusta Framsóknar skiptir um skoðun í þessu máli og segir: Bíðið við, við höfum 3 milljarða til ráðstöfunar umfram það sem fer í prósentulækkun á tekjuskatti og hugsanlega fer eitthvað af því í virðisaukaskattslækkun. Þó taldi hún að það færi frekar í auknar barnabætur. Nú gerist það ekki, eins og fram hefur komið. Þá eigum við auðvitað eftir að sjá hvort Framsóknarflokkurinn ætlar að renna á rassinn með allt það sem hann hefur sagt.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir ætti að fara sér hægt þegar hún talar um barnabætur. Ástæðan er sú að hafi Framsóknarflokkurinn slæman feril í einhverjum málum þá er það varðandi barnabæturnar. Þegar ég og sá þingmaður, sem var skotspónn hv. þm. Halldórs Blöndals, Jóhanna Sigurðardóttir, stigum út úr ríkisstjórn 1995 voru barnabætur það miklar að þær námu sem svaraði 1% af vergri landsframleiðslu. Við kosningarnar síðustu námu barnabætur 0,55% af landsframleiðslu. Á þessu tímabili, frá árunum 1995 til kosninga 2003, hafði Framsóknarflokkurinn, sem fór með félagsmálin, plokkað samtals rúmlega 11 milljarða af barnafjölskyldum með því að lækka barnabætur hlutfallslega. Svo kemur hv. þm. Dagný Jónsdóttir og heldur því fram að vert sé að hrósa því að Framsókn kunni að ætla sér að hreyfa við barnabótunum. Það er ekki liðinn dagur frá yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra þegar allt annað kemur í ljós.

Frú forseti. Ég vil að lokum lýsa yfir ánægju Samfylkingarinnar með þá þverpólitísku samstöðu sem komið hefur fram í þinginu. Það er í reynd enginn flokkur sem hefur mælt gegn þeirri aðferð sem við viljum nota til þess að lækka skatta, þ.e. að lækka matarskattinn. Hins vegar hefur komið í ljós að Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem kemur í veg fyrir að þessi sanngjarna skattalækkun nái fram að ganga.

Samfylkingin er þeirrar skoðunar að myndast muni svigrúm til að lækka skatta. Við höfum hins vegar sagt að forsenda þess að skattar séu lækkaðir sé að ekki verði ráðist í niðurskurð á hinu félagslega velferðarkerfi. Við teljum hægt að lækka skatta án þess að svo sé gert.

Þar fyrir utan, frú forseti, getum við skoðað bara það sem gerst hefur frá því þessi ríkisstjórn tók við völdum að nýju eftir kosningar. Við sjáum að jafnvel þótt þetta frumvarp yrði samþykkt strax á morgun, og matarreikningur landsmanna þar með lækkaður um 5 milljarða kr., þá gerir það samt ekki nema rétt að vega á móti þeim skattahækkunum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hafa staðið fyrir á því röska ári sem liðið er frá kosningum.

Séu þær álögur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt á þessu kjörtímabili lagðar saman þá nemur það hærri upphæð heldur en við erum að tala um í því frumvarpi sem við höfum reifað í dag. Það má kannski segja að ef samstaða tækist um að afgreiða lækkun á matarskatti þá værum við í reynd að núllstilla kerfið. Við værum að setja skattheimtuna í sama punkt og hún var þegar þetta kjörtímabil hófst.

Ég vísa alfarið til föðurhúsanna því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið að tala um í dag, um að hann og flokkur hans hafi lækkað svo marga skatta. Staðreyndin er sú að aldrei hafa jafnmargar öfugmælavísur verið kveðnar um skattalækkanir og einmitt af Sjálfstæðisflokknum á þessu kjörtímabili. Við eigum eftir að sjá hvernig skattalækkununum lyktar. Við eigum eftir að sjá hvernig barnabótunum lyktar. Við eigum eftir að sjá hvort það verður virkilega raunin að Framsóknarflokkurinn komi í veg fyrir að Samfylkingunni takist með tilstyrk annarra flokka á Alþingi að lækka matarkostnað landsmanna um 5 milljarða kr. Það er kjarninn í málinu sem við höfum rætt um í dag.