131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

79. mál
[13:41]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur verið ósveigjanleiki í Íbúðalánasjóði á undanförnum árum gagnvart þeim sem hafa verið með lán þar og menn hafa einblínt á hámarkslán sem veitt eru við kaup á íbúðum. Síðan hafa orðið breytingar í gegnum tíðina, menn hafa verið að hækka það hámark og margir sem fjármögnuðu hluta af sínum íbúðakaupum eða húsakaupum með viðbótarlánum hafa verið í algerum vandræðum með að fá viðbótarlán til íbúðanna. Íbúðalánasjóður hefur ekki viljað líta á það að taka þátt í endurfjármögnun af því tagi og ég spyr hæstv ráðherra: Finnst honum ekki kominn tími til að Íbúðalánasjóður endurskoði þá afstöðu og gefi mönnum möguleika á endurfjármögnun allt að hámarki í því sem Íbúðalánasjóður hefur til ráðstöfunar handa þeim sem eru að kaupa íbúðir?