131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.

94. mál
[13:50]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég nefna að kjarasamningar sem samtök aðila vinnumarkaðarins hafa gert gilda sem lágmarkskjör fyrir alla launamenn hér á landi í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hlutaðeigandi samningar taka til, samanber 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Gildir þetta, hæstv. forseti, um launamenn er vinna störf sín hér á landi óháð þjóðerni eða uppruna starfsmanna eða eigenda fyrirtækjanna. Þessi regla var síðan ítrekuð í lögum frá árinu 2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið hér á landi á vegum erlendra fyrirtækja.

Með hliðsjón af þeirri meginreglu að kjarasamningsviðræður hafa verið á verksviði aðila vinnumarkaðarins hefur eins og flestum ætti að vera kunnugt verið litið svo á að eftirlit með að kjarasamningar skuli haldnir sé einnig á ábyrgð aðilanna sjálfra. Verður þetta enn fremur að teljast eðlilegt í ljósi þess að um frjálsa samninga milli aðila er að ræða. Þar af leiðandi hefur opinbert eftirlit með kaupi og kjörum launafólks ekki tíðkast hér á landi. Hafa stéttarfélögin séð um að gæta hagsmuna félagsmanna sinna telji þeir brotið á sér í starfi með því að beina kröfum að vinnuveitendum um úrbætur. Engin undantekning gildir um stöðu útlendinga að þessu leyti. Hafa stjórnvöld því ekki heimildir til að kanna launakjör almennt á innlendum vinnumarkaði, hvorki hjá útlendingum né öðrum hópum.

Í þessu samhengi ber að geta þess að fyrr á þessu ári gerðu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins með sér samning um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Þar kemur m.a. fram að það sé hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustað að ganga úr skugga um að gerðir kjarasamningar séu haldnir gagnvart starfsfólki. Í tilvikum þegar ekki tekst að leysa innan fyrirtækis ágreining sem kann að rísa vegna starfskjara erlends launafólks er heimilt að vísa þeim ágreiningi til sérstakrar samráðsnefndar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands.

Samhliða samkomulaginu samþykktu aðilarnir bókun þar sem því var beint til mín sem félagsmálaráðherra að sjá til þess að því yrði veitt almennt gildi með því að leggja fram hér á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 55/1980. Sú frumvarpsvinna fer nú fram í félagsmálaráðuneytinu í nánu samstarfi við hlutaðeigandi samtök.

Að því er varðar ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins ber atvinnurekanda að skila ráðningarsamningi hans við hlutaðeigandi starfsmann til Vinnumálastofnunar um leið og hann leggur inn umsókn um atvinnuleyfi. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um kaup og kjör starfsmannsins. Fái Vinnumálastofnun fregnir um að vinnuveitendur fari ekki að ráðningarsamningi sem leyfisveiting byggir á kannar stofnunin hvort skilyrði leyfisveitingarinnar séu ekki lengur fyrir hendi. Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna atvik sem kom upp á síðasta ári er fregnir bárust um að starfsmönnum á Kárahnjúkum væru greidd laun í ósamræmi við ráðningarsamninga. Við þessu var brugðist af hálfu Vinnumálastofnunar. Starfsmenn hennar fylgdust með útborgun launa en við það eftirlit kom ekkert athugavert í ljós, hæstv. forseti.

Það skal tekið fram að það stendur ekki til af hálfu stjórnvalda að koma á opinberu eftirlitskerfi með launakjörum útlendinga. Það er hins vegar lögð á það áhersla að viðhalda því vinnumarkaðskerfi sem hefur þróast hér í gegnum tíðina í nánu samráði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Ég bind vonir við að fyrrgreint samkomulag aðilanna komi til með að vera tæki sem sporni gegn hættunni á félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Að því er varðar aðbúnað starfsmanna á vinnustöðum gilda lög nr. 46/1980. Samkvæmt þeim hefur Vinnueftirliti ríkisins verið falið eftirlitshlutverk með að atvinnurekendur sem lögin taka til stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsmenn sína á vinnustöðum. Vinnueftirlitið heldur úti reglulegu eftirliti með fyrirtækjum er starfa í landinu án tillits til þess hverrar þjóðar starfsmenn eða eigendur þeirra eru. Fyrirtækin eru flokkuð í fjóra áhættuflokka og ræðst tíðni reglubundinna skoðana að nokkru leyti af þeirri áhættu sem til staðar er í fyrirtækjunum.

Í tilvikum þegar Vinnueftirlitið telur úrbóta þörf beinir það fyrirmælum til atvinnurekandans. Verði hann ekki við kröfum stofnunarinnar er henni heimilt að beita atvinnurekandann þvingunarúrræðum. Er gengið út frá því að eftirlit Vinnueftirlits sé til þess fallið að koma í veg fyrir félagsleg undirboð að því er varðar aðbúnað starfsmanna hvort sem þeir eru af erlendum eða innlendum uppruna.

Í sambandi við fyrirspurn um umsvif starfsmannaleigna þá er frá því að segja að ég skipaði þriggja manna starfshóp í haust sem hefur m.a. það hlutverk að skoða sérstaklega starfsumhverfi starfsmannaleigna sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en kjósa að veita þjónustu hér á landi. Hópnum er enn fremur ætlað að kanna nauðsyn þess að sett verði sérlög um starfsemi starfsmannaleigna er eiga sér staðfestu hér á landi. Þá er starfandi samstarfsnefnd á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga milli stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins.

Hæstv. forseti. Ég hef lagt á það áherslu að viðhafa gott samráð við aðila vinnumarkaðarins og því er ekki öðruvísi farið hvað varðar málefni útlendinga og hugsanleg félagsleg undirboð. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum og ég stefni á að halda uppteknum hætti á komandi vetri.