131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.

94. mál
[13:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft afar alvarlegu máli og kannski er ekki mögulegt að ræða það til hlítar í fyrirspurnatíma. Hæstv. félagsmálaráðherra kýs að svara efnismiklum spurningum á afar almennan hátt og sneiðir í raun hjá því að orða hið alvarlega ástand sem uppi er í þessum málum á Íslandi. Sannleikurinn er auðvitað sá að við höfum frá því að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust séð alvarleg dæmi þess að aðbúnaður á vinnustöðum erlendra farandverkamanna á Íslandi er skelfilegur og langt undir því sem eðlilegt gæti talist að kröfur væru gerðar um. Ég fullyrði hér, frú forseti, að stéttafélögin, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og aðrir aðilar sem að þessum málum koma eru fullkomlega vanbúnir því ástandið er slíkt. Við gerðum ráð fyrir að 30% af mönnunum sem ynnu við framkvæmdirnar væru erlendir eða kæmu utan lands frá. Sannleikurinn er sá að þeir eru 70%. Ástandið er sem sagt þannig að okkar aðilar sem hafa með umsýslu þessara hluta að gera eru vanbúnir.