131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

103. mál
[14:17]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Á síðasta þingi beindi ég þeirri fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra hvort til stæði að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins og einnig hvort fram hefði farið einhvers konar undirbúningsvinna eða könnun á slíkri sameiningu. Að mínu mati og margra annarra mælir margt með því að sameina eigi þessar tvær stofnanir þar sem þær vinna að mörgu leyti að svipuðum verkefnum og hafa að sumu leyti sameiginleg markmið og voru upphaflega ein og sama stofnunin og störfuðu lengi eftir sömu lögum. Við þá umræðu mæltist hæstv. ráðherra þannig, með leyfi forseta:

„Ég útiloka í raun ekki að það geti komið til þess og það þarf að fara rækilega yfir samruna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins og hinna stórfenglegu skógræktarverkefna, landshlutaverkefnanna, og hvernig við þjónum best þeim nýja og öfluga atvinnuvegi sem er að rísa í landinu.“ — Sagði ráðherra þá.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hans nú hvort málinu hafi fleygt fram með einhverjum hætti og hvort hafin sé vinna að sameiningu þessara stofnana sem mér þótti fá góðan byr á meðal bænda og margra annarra áhugamanna um landgræðslu, skógrækt og eflingu landbúnaðarins eins og það kemur fyrir og virtist málið falla í góðan jarðveg, m.a. í fréttaflutningi og umræðum í Bændablaðinu.

Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann væri farinn af stað með slíka sameiningu, hvort einhvers konar samrunaferli væri hafið, viðræðuferli, könnunarferli á kostum og göllum eða einhvers konar langtímamarkmið um slíka sameiningu. Það liggur fyrir að ávinningur af slíkri sameiningu gæti verið mjög margvíslegur, aukin skilvirkni, hagræði, samnýting, minni sóun, aukið þekkingaflæði, miklu betri nýting á sérfræðiþekkingu sem er mjög mikil innan beggja stofnana og búa þær yfir þekkingu á heimsmælikvarða, þær rannsaka svipuð svið og vinna að svipuðum málum og því er mjög freistandi að leggja til að menn fari í slíkt ferli að sameina stofnanirnar. Þær gætu skilað okkur mjög margvíslegum ávinningi eins og aukinni fræðslu um mikilvægi bæði landgræðslu og skógræktar, möguleikum á auknu fjármagni, ekki síst gegnum Evrópusambandið og rannsóknasjóði ýmiss konar. Þá má sjá fyrir sér að það væri bæði sjálfsagt og vel mögulegt að tengja slíka nýja og sameinaða öfluga stofnun landgræðslu og skógræktar við hinn nýstofnaða Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem sá háskóli gæti hagnast mjög á nánu samstarfi við þá nýju og öflugu stofnun sem augljóslega tengist svo mjög landbúnaðinum og ekki síst nýjum og góðum sóknarfærum fyrir landbúnaðinn sem er að sjálfsögðu í sókn á mörgum sviðum þó að hann sé í harkalegri nauðvörn á öðrum og við þurfum öll að leggja þar til ný tækifæri.