131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

103. mál
[14:31]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa jákvæðu umræðu. Ráðherra sá sem hér stendur hefur haft það fyrir sið að vera bæði jákvæður og bjartsýnn en hann veit samt sem áður að allt hefur sinn tíma og verður að hafa sinn tíma og að fara verður að hlutunum með gætni.

Það vill svo til að starfsemi Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins er rekin um allt land. Þær starfa um allt land, í höfuðborginni og í öllum kjördæmum eru þær með sín setur og sína fulltrúa. Ég get nefnt sem dæmi að vísindamennirnir hjá Skógrækt ríkisins sitja enn undir Esjurótum á Mógilsá.

Ég hygg að sú sýn sé rétt sem bæði kemur fram í þessari umræðu og kemur oft fram að við þurfum að tengja saman bæði menntunina og rannsóknirnar og gera það eftir skilvirku kerfi.

Ríkisendurskoðun segir engum fyrir verkum og fer ekki með pólitíkina í landinu en hún hefur auðvitað sitt frelsi til að setja ýmislegt fram, oft rétt en stundum vafasamt.

Ég vil segja undir lok þessarar umræðu og svara því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um. Það er að koma ný skýrsla eða ný úttekt á Hólaskóla og styrkingu hans til framtíðar. Þar kemur auðvitað margt til greina til að efla þá mikilvægu menntastofnun hvort sem það verður Veiðimálastofnun eða annað sem gæti farið þangað en þar er mikil þekking í bleikju eins og hv. þm. þekkir og mikil þekking saman komin.

Ég þakka þessa umræðu og er jákvæður fyrir því að skoða málið varðandi Landgræðsluna og Skógræktina og vinna það þá innan frá og finn þann skilning á hinu háa Alþingi og þakka fyrir það. En eins og hv. þm. sagði áðan, þegar hinu stóra verki er lokið um áramót þá hefst auðvitað nýr tími og þá skulum við tala saman.