131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:47]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að hluti af þeim spurningum sem ég lagði fram hefðu þurft að koma fram skriflega. Ég hef reyndar fullan hug á því að leggja fram fyrirspurn í fleiri liðum varðandi stimpilgjaldið til að draga fram enn frekari upplýsingar um stimpilgjaldið og hvernig tekjur ríkissjóðs vegna stimpilgjaldsins skiptast.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir að endurskoða þurfi þennan skatt sérstaklega og skil vel að það taki sinn tíma. Hins vegar er aðgerðin við endurfjármögnun lána, að taka stimpilgjöld ef einstaklingur flytur lán á milli stofnana mjög óréttlát skattlagning. Stimpilgjald er óréttlátt en þessi hluti er að mínu mati mjög óréttlátur. Ég sé ekki, eins og ég sagði áðan, að tekjutap ríkissjóðs vegna þessa yrði það mikið að það ætti að standa í vegi fyrir því að hægt væri að breyta reglunum.

Fram kemur í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu að tekjur vegna stimpilgjaldsins á síðasta ári, 2003, eru rúmar 3 milljarðar og 770 millj. en reiknað er með að þær verði yfir 4 milljarðar í ár. Í skýrslunni sem ég nefndi frá Samtökum atvinnulífsins kemur fram að reikna megi með að um 60% af upphæðinni sé greidd af einstaklingum og þá fyrst og fremst þeim sem fjárfesta í húsnæði. En það segir ekki alla söguna vegna þess að hluti af þessu fer aftur til baka í formi vaxtabóta af því að setja má stimpilgjaldið þar undir.

Ég held að það sé löngu orðið tímabært að fara yfir allan gjaldaflokkinn og ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi stimpilgjaldið af og taka upp eðlilega gjaldtöku fyrir veitta þjónustu í staðinn og fagna því sérstaklega ef hæstv. ráðherra er tilbúinn í þá vinnu.