131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:49]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Forseti. Ég held að það sé varhugavert að tengja umræðuna of mikið því ástandi sem upp hefur komið á þessu sumri vegna breytinga á fjármálamarkaðnum hvað varðar íbúðalán. Það er miklu nær að tala um þetta á almennum grundvelli og ekki blanda því tiltekna ástandi sem nú er upp komið of mikið í þá umræðu. Reyndar segja sumir að aukið framboð lánsfjár, sem er staðreynd með breyttu fyrirkomulagi á vegum bankanna, geti leitt til meiri einkaneyslu og þenslu og hugsanlega verðbólgu. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að draga úr þeirri gjaldtöku sem stimpilgjaldið er, vegna þess að ef það hverfur verður enn greiðari leið að auka lánsfjármagn í umferð og þar með neysluna og þar með þensluna ef menn á annað borð fallast á þessa kenningu.

Það eru því margar hliðar á málinu. Ég legg áherslu á að endurskoðun stimpilgjaldsins verði heildstæð og ítreka það sem ég sagði áðan að þar hefur vakað a.m.k. fyrir mér og fleirum sem um þessi mál hafa talað fyrst og fremst spurningin um stimpilgjald á lánsskjölum vegna samkeppnisstöðu íslenskra fjármálastofnana en ekki endilega gjaldtakan á þinglýsingagerninga eða eignayfirfærslur vegna fasteignaviðskipta.