131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Umfang skattsvika.

127. mál
[14:51]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í maí árið 2002 samþykkti Alþingi tillögu um að fela fjármálaráðherra að láta gera úttekt á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Leggja átti mat á hvernig þau hafa þróast frá árinu 1993 eftir skatttegundum, atvinnugreinum, landsvæðum og í samanburði við aðrar þjóðir og hvert tekjutap ríkis og sveitarfélaga hafi verið af þessum sökum. Jafnframt var markmiðið að greina helstu ástæður skattundandráttar og að hve miklu leyti megi rekja hann til skattalaga annars vegar og skattaframkvæmda hins vegar og leggja fram tillögu til úrbóta og meta hvort og á hvaða sviðum efla þyrfti skatteftirlit og skattrannsóknir og hvaða ávinningi það gæti skilað í auknum skatttekjum. Starfshópur sem var falið þetta verkefni átti að skila niðurstöðu fyrir 1. júlí 2003 eða fyrir meira en ári.

Ég bar fram fyrirspurn að mig minnir í nóvembermánuði á síðasta þingi til hæstv. fjármálaráðherra um framkvæmd þingsályktunartillögunnar. Hæstv. ráðherra setti þá fram rök sem ég hafði skilning á fyrir drætti á því að starfshópurinn skilaði af sér. Hæstv. ráðherra tíundaði að viðfangsefni starfshópsins væri miklu víðfeðmara en fyrri sambærilegra starfshópa en tveir starfshópar hafa starfað að úttektum á umfangi skattsvika, annar að mig minnir 1984 og síðari 1992. Í þeim síðari var áætlað að óframtaldar tekjur hefðu numið sem samsvarar 4¼ af landsframleiðslu og sem samsvararði á árinu 1992 um 16 milljörðum sem ekki hafa verið gefnir upp til skatts. En það var rétt hjá hæstv. ráðherra að tillagan er miklu víðfeðmari. Hæstv. ráðherra benti líka á að vegna breyttra aðferða við úrvinnslu gagna hafði starfshópnum ekki tekist, a.m.k. enn sem komið er, að afla sambærilegra gagna vegna áranna 1998–2002 eins og um var beðið.

Þetta var í nóvember á sl. ári. Það mátti skilja af orðum ráðherra þá að þetta tæki ekki nema örfá mánuði til viðbótar og því hélt ég að skattahópurinn væri löngu búinn að skila af sér. Ég hef ekki orðið vör við það í umræðunni að niðurstaðan liggi fyrir frá skattahópnum. Því hef ég borið fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um hvenær megi vænta niðurstöðu starfshópsins sem átti samkvæmt þingsályktun frá 3. maí 2002 að gera úttekt á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi.