131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Þjónusta við yngri alzheimersjúklinga.

114. mál
[15:00]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Alzheimersjúkdómurinn er hrörnunarsjúkdómur sem talið er að hrjái um 35% þeirra sem orðnir eru 85 ára. Sjúkdómurinn er þó ekki aðeins bundinn við eldra fólk og er talið að um 100–150 manns á aldrinum 45–65 ára séu með heilabilun hér á landi, sé miðað við tölur frá nágrannalöndunum. Árlega koma um 15 manns á þeim aldri til greiningar á minnismóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss og einhverjir fá greiningu hjá tauga- og geðlæknum.

Aðstæður þessa yngri og miðaldra sjúklinga eru aðrar en aldraðra. Þeir eru yfirleitt sjálfir í vinnu þegar þeir veikjast. Börnin þeirra eru í vinnu og eiga eigin fjölskyldur auk þess að eiga þetta veika foreldri. Makinn lendir í umönnunarhlutverki og hjónin bæði einangrast. Þetta er mjög erfiður sjúkdómur sem hefur áhrif á alla fjölskyldu sjúklingsins.

En öll þjónusta fyrir alzheimersjúklinga hér á landi miðast við aldraða. Því er staða yngri sjúklinganna mun verri en ella. Þeim og aðstandendum þeirra finnst þeir ekki eiga samleið með öldruðum, svo sem á dagdeildum og hvíldarinnlögnum þannig að aðstandendur eiga erfitt með að þiggja þessa þjónustu og ganga mjög nærri heilsu til að annast sjúklingana heima enda geta sjúklingarnir verið hættulegir bæði sjálfum sér og öðrum og þurfa því mjög mikla gæslu. Því er ljóst að engin sérhæfð þjónusta er fyrir þennan hóp á þessu stigi samkvæmt mínum heimildum. Ekki tekur betra við þegar heilsufar þeirra versnar. Þá hafa þessir sjúklingar ekki aðgang að hjúkrunarheimilum eins og áður. Þeim hefur verið lokað fyrir sjúklingum yngri en 67 ára og ekki er unnt að sækja um fyrir þá þó þeir séu með vistunarmat eftir að rafræna kerfinu var komið á. Unnt er að sækja um undanþágu til ráðherra. Þrátt fyrir það að hún fáist neita heimilin jafnvel þeim um hjúkrunarvist. Þetta fólk þarf þá að bíða í rándýrum sjúkrarúmum til 67 ára aldurs. Þá getur það komist á biðlista eftir hjúkrunarheimili. Þetta ástand er auðvitað gjörsamlega óviðunandi. Hér á aldur ekki að skipta máli heldur hjúkrunarþörf þess einstaklings sem á við þennan sjúkdóm að stríða.

Hvernig stendur á því að þetta er látið ganga svona gagnvart þessum hópi? Það ætti ekki að þurfa. Ástandið á Landspítalanum hefur lagast mjög. Fólk er ekki að bíða lengur svo margt í rándýrum sjúkrarúmum. Það voru yfirleitt um 100 manns sem biðu eftir hjúkrunarplássum inni á spítalanum. En þeir eru ekki nema 65 í dag. Þó geta alzheimerdeildirnar á Landakoti ekki losað rúm því ekki er pláss fyrir alzheimersjúklinga inni á hjúkrunarheimilunum þannig að þær geta ekki tekið við sjúklingum í mikilli neyð. Þetta ástand brýtur upp fjölskyldu hins veika sem á í rauninni í engin hús að venda.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða sérhæfð þjónusta stendur alzheimersjúklingum undir 67 ára til boða í heilbrigðiskerfinu?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þessi hópur fái aðgang að hjúkrunarheimilum?