131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

159. mál
[10:32]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar tæknilegar breytingar sem fela í sér að skráningarskyldum hlutafélögum og einkahlutafélögum verði heimiluð svokölluð samskráning á virðisaukaskattsskrá að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Markmiðið með þessari breytingu er að gera móður- og dótturfélögum kleift að vera ein skattaleg eining að þessu leyti þannig að heildarvirðisaukaskattur allra félaganna verði jafnhár og hann hefði orðið ef öll starfsemi félaganna hefði verið rekin í einu félagi.

Samkvæmt frumvarpinu skal samskráningin vera í nafni móðurfélagsins en félögin bera þá óskipta ábyrgð á greiðslu virðisaukaskattsins. Þá eru sambærileg skilyrði sett fyrir heimild til samskráningar á virðisaukaskattsskrá og gilda fyrir samsköttun félaga samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skilyrði fyrir samskráningu er að 90% hlutafjár í dótturfélaginu sé í eigu móðurfélagsins, að félögin hafi sama reikningsár og að samskráningin standi að lágmarki í fimm ár. Réttaráhrif samskráningar félaga og virðisaukaskattsskrár verða þau að með tilliti til virðisaukaskatts skoðast starfsemi hinna samskráðu sem ein starfsemi og viðskipti milli samskráðra bera ekki virðisaukaskatt umfram það sem væri ef starfsemi samskráðra félaga væri öll á einni hendi.

Ég vil taka fram að ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs né heldur á tekjur af virðisaukaskatti.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frumvarpi þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.