131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[10:55]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Um margt voru þetta fróðlegar upplýsingar sem hv. þm. færði hér fram. Tilgangur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með því að leggja fram frumvarpið og fá hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 18% er að skapa ríkinu auknar tekjur.

Mér kom í fyrsta lagi á óvart að þessi töluverða hækkun skyldi að mati hv. þm. einungis skila 3 milljörðum kr. í ríkissjóð og langar til að spyrja hann hvort ég hefði rétt eftir tekið.

Og einnig: Eru það 3 milljarðar sem eru eftir þegar búið er að taka af þessu svigrúmi það sem þarf til þess að standa straum af skattfrelsismörkunum hinum nýju sem á að leggja á persónulegan sparnað?

Í þriðja lagi: Ef þarna er um að ræða töluverðan sparnað upp á einhverja milljarða, er þá hv. þm. alveg sannfærður um að það sé kannski rétt að verja því svigrúmi til að búa til skattfrelsi fyrir þá að sönnu fjölmörgu einstaklinga? Ég velti því fyrir mér hvort þar sé um nauð að ræða í þeirra hópi. Þetta eru ákaflega lágar upphæðir yfirleitt, eins og sést á fjöldanum sem greiðir þetta. Og hugsanlega, ef svigrúm skapast vegna slíkra skattbreytinga, mætti verja að nota það með öðrum hætti til annarra brýnni þarfa?