131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:05]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. 9. þm. Reykv. s. segir að Ísland hefur breyst á margan hátt. Viðskiptalífið og efnahagsumhverfi okkar hefur breyst. Ég álít að sú breyting sem fylgdi því að tekinn var upp fjármagnstekjuskattur hafi átt þátt í að breyta samfélaginu t.d. með þeim hætti að gera fjármagnshreyfingar í viðskiptalífinu auðveldari en áður. Ég held að skattstofninn sem er að koma fram í tekjum ríkissjóðs í dag hefði ekki endilega komið fram að óbreyttum reglum, t.d. í sambandi við skattlagningu arðs og skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum, vegna þess að það að hafa lágan skatt t.d. á söluhagnað af hlutabréfum felur m.a. í sér að menn selja hlutabréf frekar. Með hækkun fjármagnstekjuskatts á viðskipti af því tagi gæti e.t.v. dregið úr slíkum viðskiptum þannig að skattstofninn mundi minnka.

Ég vék að þessu í lok máls míns í fyrra andsvari vegna þess að ég held að hv. þm. og meðflutningsmenn hans ættu að hafa áhyggjur af því að skattstofninn skreppi einfaldlega saman ef skatthlutfallið hækkar. Við höfum séð dæmi um það t.d. í sambandi við fyrirtækjaskattana að þar hafa tekjur ríkissjóðs stóraukist eftir því sem hlutfallið lækkar. Það sama á við um fjármagnstekjur eins og hagnað fyrirtækja, þar er um að ræða kannski allra hreyfanlegustu skattstofna í hagkerfinu. Þannig að þeir eru ekki fasti sem er hægt að ganga að sem vísum, heldur ráðast m.a. af lagaumhverfi og öðru slíku. Aðilar sem eru í rekstri eða þeir sem sýsla með verðbréf haga ákvörðunum sínum m.a. eftir því hvernig skattaumhverfið er. Hærra skatthlutfall getur því þýtt minni skatttekjur.