131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:22]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru fróðlegar yfirlýsingar frá talsmanni Sjálfstæðisflokksins og kaldar kveðjur til láglaunafólks á Íslandi sem hann segir búa við mjög góð kjör. Hann vill lækka skatta. Hvað þýðir það? Það þýðir að þetta fólk kemur til með að greiða fyrir þjónustu sem það fær frá velferðarkerfinu með öðrum hætti beint. Þetta er ávísun á notendagjöldin fyrir sjúklinga og skólanema.

Hv. þm. talaði um skattkerfið og tilgang þess, hvort það væri til fjáröflunar eða jöfnunar. Til hvors tveggja segjum við. Þetta er líka hagræðingaratriði fyrir alla. Í stað þess — og þá er ég að horfa til millifærslukerfisins almennt — að greiða mönnum laun í samræmi við að þeir séu að byggja alla ævina, að þeir séu með börn á framfæri alla ævina, að einhver í fjölskyldunni sé sjúkur alla ævina, að einhver sé í langskólanámi alla ævina í fjölskyldunni og þurfi á framfærslu að halda.

Í stað þess að greiða laun í samræmi við þessi útgjöld hefur samfélagið komið sér saman um millifærslu á meðan fólk er að byggja, á meðan það er veikt, á meðan það er með börn á framfæri o.s.frv. Það er í hagræðingarskyni sem við jöfnum kjörin með þessum hætti, þetta er ekki bara réttlætismál, þetta er líka í hagræðingarskyni gagnvart atvinnurekstrinum í landinu.

Síðan var náttúrlega fróðlegt að heyra hv. þm. tala um réttlætið, um hinn snjalla og um hinn duglega. Eru það hinir snjöllu og hinir duglegu sem búa við best kjörin í landinu? Er þetta endurspeglun á þá mynd sem hv. þm. sér í samfélaginu í kringum sig? Ég hefði haldið ekki.