131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:26]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Manni verður eiginlega alltaf orða vant þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal byrjar að tala um láglaunafólk og öryrkja á Íslandi. — Fólk á bara að hætta að vera öryrkjar, fólk á bara að hætta að vera láglaunafólk, þessu vil ég breyta, segir hann.

Þetta er, ég veit ekki hvað skal kalla það, einföldun eða einfeldni, kannski er þetta einfeldni. En það er skrýtið að manni sem lítur á samfélagið í einföldum lausnum skuli vaxa í augum tæknileg útfærsla á fjármagnstekjuskatti. Ekki er þetta vandamál í þeim ríkjum sem við höfum verið að horfa til, á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Ástralíu. En þetta vex hv. þm., tryggingastærðfræðingnum, Pétri H. Blöndal í augum. Það kemur mér svolítið á óvart.

Ég vona að hann eigi eftir að flytja lengra mál um sýn sína á íslenskt samfélag, en ég bið hann um að spara kveðjurnar til láglaunafólksins og öryrkjanna sem hann hafði í frammi áðan.