131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:18]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hann er merkilegur, þessi söngur Samfylkingarinnar um árangur framsóknarmanna í barnabótakerfinu. Það eru ótekjutengdar barnabætur fyrir börn sjö ára og yngri sem nema um 30 þús. kr. á ári sem allir fá. Þegar það niðurskurðartal sem hv. þm. hóf í gær, og Samfylkingin hefur reyndar viðhaft hér í umræðum um fjárlög og önnur skattamál í upphafi þessa þings, er viðhaft vil ég benda á að á síðustu þremur árum hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn aukið framlög á hverju ári sem nemur 500 millj. Það er 500 millj. kr. aukning á ári síðustu þrjú ár, einn og hálfur milljarður til barnabóta.

Þegar við heitum því að verja allt að 3 milljörðum til viðbótar til barnabótakerfisins kemur hv. þm. og talar um niðurskurð. Slíkt er ekki rétt.

Ég viðhafði aldrei þau orð hér að lágtekjufólk eyddi meira í matvöru en hátekjufólk. Það er útúrsnúningur. Við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að lágtekjufólk eyðir hlutfallslega meira af tekjum sínum í sína matarkörfu. Kemur það sér þá ekki best að verja þessum fjármunum, þessum 3 milljörðum og þessum eina og hálfa milljarði sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagt til barnabótakerfisins, þar sem þeir gagnast hlutfallslega best, þ.e. hjá íslenskum fjölskyldum, barnafólki og lágtekjufólki? Er Samfylkingin á móti því? Ég stórefa að Samfylkingin verði á móti þessu góða máli.

Þegar menn eru í pólitík, í stjórnarandstöðu, glepjast þeir oft í pólitískt yfirboð. Þeir lofa lækkun á stimpilgjöldum, lækkun skatta, lækkun á skattleysismörkum, lækkun á matarskatti og svo má áfram telja en þetta eru eintóm yfirboð.