131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:34]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson endaði á að ræða um stefnu stjórnarflokkanna hvað varðar tekjuskatt einstaklinga. Ég held að sé mikilvægt að við höfum það í huga í þeirri umræðu að árið 1987 eða 1988 var núverandi tekjuskattskerfi einstaklinga tekið upp. Þá var tekjuskattur 35,2%.

Þau áform sem núverandi ríkisstjórn hefur um lækkun á tekjuskatti einstaklinga gera ekkert meira en að jafna þau viðmið sem sett voru á þeim tíma og kannski rétt rúmlega það. Í umræðunum, þegar þáverandi ríkisstjórn setti þann skatt á íslenska launþega, 35,2% skatt, kom fram í máli fjölmargra þingmanna að þetta mætti ekki hækka, það mætti ekki hækka álögur á launafólk meira en þá var gert. Núverandi ríkisstjórn er að færa skattprósentuna í svipað horf og var árið 1987 eða 1988, svo sögunni sé nú til haga haldið í þessum sal. (GAK: Snúa niður fyrri verk.)

Varðandi það ágæta þingmál sem hér er mælt fyrir, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem hv. þingmenn Vinstri grænna flytja, vil ég byrja á að segja að ég er ekki sammála innihaldi frumvarpsins að öllu leyti og tel mega gaumgæfa margt sem þar er lagt til. Mér finnst lýsandi fyrir frumvarpið að sameining stjórnarandstöðunnar er nú ekki meiri en slík að einungis Vinstri grænir eru á þessu máli.

Við vorum að tala um lækkun á matarskatti í gær. Ég held að stjórnarandstaðan hafi ekki verið sameinuð í þeim efnum heldur. Eitthvað virðist bera þar á milli enda um ólíka flokka að ræða. En ég minnist ekki annars en að stjórnarandstaðan hafi komið vígreif til þessa þings og lagt áherslu á að hún mundi standa saman að sem flestum málum. Byrjunin er a.m.k. ekki góð í þeim efnum.

Fjármagnstekjuskatturinn sem við ræðum um í dag, 10% á tekjur einstaklinga, skilar ríkissjóði 7,7 milljörðum kr. sem stendur. Það eru gríðarlegar upphæðir. Við gætum t.d. rekið Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í tvö og hálft ár rúmlega fyrir þá fjárhæð. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að í tíð Alþýðuflokksins í ríkisstjórn 1991–1995, af því fulltrúar Alþýðuflokksins hafa tekið þátt í þessari umræðu, var enginn fjármagnstekjuskattur greiddur í þessu landi. Enginn. Þá var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson einnig ráðherra. En sú ríkisstjórn setti ekki á fjármagnstekjuskatt. Þá var jafnaðarmennskan við lýði.

Það var í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 1996 eða 1997 að núverandi fjármagnstekjuskattur var settur á og hann skilar nú 7.700 millj. kr., miðað við fjárlagafrumvarpið 2005, inn í ríkissjóð.

Ég set spurningarmerki við eitt í máli hv. þingmanna Vinstri grænna varðandi útreikning þeirra á því sem slík lagabreyting mundi í raun skila þjóðarbúinu, þ.e. að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 10% upp í 18%. Í fyrsta lagi ætla þeir að gera tekjur af upphæð sem svarar um 2,2 millj. kr., sem venjuleg fjölskylda á inni á bankareikningi, skattfrjálsar. Miðað við frumvarpið verða skattleysismörk upp að 120 þús. kr. Það er einn tilgangur þessa frumvarps, að tekjur sem gefa um 120 þús. kr. í fjármagnstekjur verði gerðar skattfrjálsar. Aftur á móti eigi þar af leiðandi að innheimta þessi 18% af mógúlum, eins og sagt var í umræðunni áðan, og auðmönnum.

Bent hefur verið á að við búum við frjálst flæði fjármagns. Svokallaðir mógúlar — ég vil ekki nota slíkt neikvætt orð um þá sem vegnar vel í lífinu, gengur vel og hafa tekið áhættu og barist til eigna — viðkomandi menn geta einfaldlega flutt eignir sínar úr landi.

Þá spyr maður sig: Höfum við gengið til góðs ef við hrekjum alla stóreignamenn úr landi þannig að þeir borgi ekki þennan fjármagnstekjuskatt sem skilar okkur 7.700 millj. kr.? Ég set ákveðinn fyrirvara við að það sé sjálfgefið að með slíkri breytingu komi aukalega 3 milljarðar kr. inn í ríkissjóð. Ég leyfi mér að draga það í efa.

Ég held að það sé sameiginleg stefna þess sem hér talar og stjórnarandstöðunnar að vilja standa vörð um velferðarkerfið. Við viljum ekki draga úr útgjöldum til velferðarmála. En leiðirnar sem menn hafa mælt fyrir eru ólíkar. Við viljum fara ólíkar leiðir að því marki. Ég er á því að við eigum að smyrja hjól atvinnulífsins, örva atvinnulífið. Ég leyfi mér að efast um að stórhækkanir á sköttum á fyrirtæki muni leiða til þess að við eflum atvinnulífið sem á þar af leiðandi að standa undir öflugu velferðarkerfi.

Samkvæmt þessu greiða fyrirtæki í dag 18% tekjuskatt. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 10% upp í 18%. Ef við setjum bara upp lítið bú sem dæmi, t.d. sveitabýli norður í landi sem skilar 10 millj. kr. í hagnað á ári. Ég veit að það er ekki algengt til sveita en við notum það sem dæmi hér. Viðkomandi bóndi borgar 1,8 millj. kr. til ríkisins í formi tekjuskatts og borgar svo, samkvæmt útreikningum mínum, um 1.480 þús. kr. til viðbótar í fjármagnstekjuskatt ef hann vill greiða afganginn út sem fjármagnstekjur. Þá erum við komin upp í prósentu sem nemur tæplega 33%. Skattastefna ríkisstjórnarinnar, sem hefur verið gagnrýnd hér, hljóðar upp á að lækka skatta launafólks, hins almenna launamanns í landinu, í 34,55%. Hér skilja því að tæp 2%, 1,8% eða svo.

Ég velti því fyrir mér, með réttu að ég tel: Erum við að örva íslenskan almenning til að taka áhættu og setja á stofn fyrirtæki með því að hafa svona lítið bil sem raun ber vitni á almennum tekjuskatti launafólks og þeirra sem taka vissulega áhættu, leggja húseignir sínar undir, taka lán og fara út í áhætturekstur? Ég leyfi mér að efast um að við séum virkilega að ýta undir þá hugsun að fólk á höfuðborgarsvæðinu og í hinum dreifðu byggðum taki frumkvæði og stofni til atvinnurekstrar. Það er mitt innlegg í þetta mál.

Þó vil ég segja, varðandi fjármagnstekjuskattinn, að ég vil ekki úttala mig um það hvort 10% skattur sé heilög tala eða hvort 12 eða 13% komi fremur til greina. Ég vil ekki úttala mig um það. Ég vildi fyrst sjá hvaða efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar það mundi hafa hér á landi.

Varðandi eignarskattinn þá er stjórnarandstöðunni tíðrætt um að við ætlum að leggja niður eignarskatta. Ég er sammála því að leggja niður eignarskatta. Margir eldri borgarar borga í dag eignarskatta. Menn eignast hús sín fyrir þær tekjur sem þeir hafa borgað skatt af, ekki rétt? Menn borga af húsum sínum með þeim peningum sem þeir fá í vasann eftir að ríkið er búið að taka sinn skerf. Þar af leiðandi finnst mér ekki rétt að við skattleggjum eignir fólks því að þá er um tvísköttun að ræða. Ég er þess vegna fylgjandi því að við leggjum á sérstakan skatt á fjármagnstekjur. Ég held að það sé þverpólitísk sátt um það. Spurningin er aðeins um hvar mörkin eigi að liggja. Ég leyfi mér að stórefa að 18% fjármagnstekjuskattur sé leiðin til lífsins í þeim efnum.

Ég ætla svo sem ekki að segja meira við þessa umræðu. Ég tel að hér sé hreyft við máli sem við þurfum að ræða betur. Það þarf að fara fram umræða um þetta mál í samfélaginu. Málið er síður en svo einfalt en ég legg áherslu á að við megum ekki búa til slíkt skattkerfi að það letji einstaklingsframtakið í þjóðfélaginu. Ég tel þess vegna ekki vert að fara þá leið sem Vinstri grænir leggja til. Ég efast stórlega um þær forsendur sem þeir gefa sér, að tekjur af fjármagnstekjum muni sjálfkrafa hækka um 3 milljarða kr. við þessar breytingar.

Auk þessa er ég fylgjandi því að allir greiði fjármagnstekjuskatt af þeim ástæðum sem ég hef rakið. Mér finnst ekki eðlilegt að fólk borgi eignarskatt eins og ég sagði áðan vegna þess að fólk er búið að borga tekjuskatt af þeim fjármunum sem það hefur aflað sér til að greiða fyrir þær eignir.

Ég þakka ágæta umræðu, sem hefur verið misjafnlega málefnaleg, m.a. þegar kemur að skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vil undirstrika það enn einu sinni að Framsóknarflokkurinn er ekki sérstaklega á móti lækkun matarskattar. En ég held að stjórnarandstaðan geti tekið undir þann málflutning að að sjálfsögðu þurfum við að huga að því hvert hið skattalega svigrúm er til að halda uppi öflugu velferðarkerfi, öflugu menntakerfi, öflugu heilbrigðiskerfi og öflugu félagskerfi. Það eru þeir fyrirvarar sem Framsóknarflokkurinn hefur gert í þessu samhengi.

Það getur vel verið að menn skori í augnablikinu með pólitískum yfirboðum hvað það varðar en ég mun ekki standa að því að skerða framlög til velferðarmála í þessu þjóðfélagi. Það er á hreinu. Þar af leiðandi er ég ekki fylgjandi því að skattar lækki niður úr öllu hófi. Hins vegar getur verið auðvelt að vera í stjórnarandstöðu, eins og háttvirtur formaður Samfylkingarinnar benti á áðan, og gera tillögu um að nánast allir skattar og allir tekjustofnar ríkisins lækki. Ég er ekki sammála því.