131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:46]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða og málefnalega umræðu um þetta frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fulltrúar allra flokka hafa tjáð sig um málið og hér hefur farið fram mjög málefnaleg og góð umræða. Menn hafa rætt almennt um skattamál og rifjaður var upp sá tími þegar fjármagnstekjuskatturinn var lagður á árið 1996. Það er nú rangt sem fram kom að helst hafi verið áhugamenn um þennan skatt að finna í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki þótt þeir hafi setið við (Gripið fram í.) stjórn í landinu því mikil umræða hafði átt sér stað um fjármagnstekjuskatt og það var mikill þrýstingur á stjórnvöld að taka þennan skatt upp. Sá þrýstingur var bæði úr pólitískum flokkum en einnig af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Það er nokkuð sem ég þekki vel og frá fyrstu hendi.

Það vekur athygli hve mikill samhljómur er í málflutningi stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir tekið vel í þær meginhugmyndir sem hér eru reifaðar. Það hefur einnig reyndar verið gert af hálfu sumra þingmann stjórnarliðsins. Vitna ég þar meðal annars í síðasta ræðumann, hv. þm. Birki Jón Jónsson, þótt hann hafi efasemdir um það fyrirkomulag sem við leggjum til, annars vegar varðandi skattleysismörkin og hins vegar prósentuna. Hann óttast að með þetta hárri prósentu, með 18% skatti, þá munum við ekki ná því markmiði að skila 3 milljörðum í ríkissjóð. Þetta höfum við rætt líka fyrr við umræðuna. Hv. þm. Birgir Ármannsson vakti sérstaklega máls á þessu.

Ég hef svarað því til, og við höfum gert það, að vísa í skattlagningu í öðrum löndum. Hún er víðast hvar hærri en hér, mun hærri víðast hvar. Í greinargerð með frumvarpinu eru tekin dæmi frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Norðurlöndunum, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og víðar. Nánast alls staðar er þessi skattur á fjármagn hærri en hér er.

Við búum enn sem áður náttúrlega við þann vanda sem við þegar stöndum frammi fyrir, að auðmenn, peningamenn fari með eignir sínar í skattaparadísir í Ermasundi, Karíbahafi, Lúxemborg og víðar. Því breytum við ekki. Ég held að þessi ótti sé ástæðulaus með tilliti til þessa.

Annað sem hér hefur verið rætt eru horfurnar í efnahagsmálum. Er svigrúm til skattalækkana? Menn hafa rætt þetta nokkuð. Ef við gefum okkur að við séum sammála um að við viljum efla efnahagskerfið verður þá hagvöxturinn og þenslan í samfélaginu og verðmætaaukningin svo mikil á komandi árum að við eigum jafnframt möguleika á að lækka skatta? Ég hef ákveðnar efasemdir um að við stöndum á eins traustum grunni hvað þetta snertir og margir ætla. Þannig er hægt að halda því fram að helsta tekjulind ríkisins núna sé viðskiptahallinn, eins mótsagnakennt og það hljómar. Í fyrra tóku bankarnir að láni í útlöndum um 300 milljarða sem síðan er pumpað inn í efnahagslífið. Sumt af þessu eru varanlegar fjárfestingar sem eiga eftir að skila sér inn í þjóðarbúið vonum við. En þetta er einnig neysla og þensla sem er mjög hol þegar allt kemur til alls. En náttúrlega skilar þetta ríkissjóði og hinu opinbera miklum tekjum bæði í beinum og óbeinum sköttum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að ég vildi hækka skatta. Það er alveg rétt. Ég vil auka tekjur ríkis og sveitarfélaga. Það er alveg rétt. Ég vil gera það. Kannski er það þó einum of mikil einföldun að setja dæmið þannig fram vegna þess að í sumum tilvikum vil ég lækka skatta. Í öðrum tilvikum vil ég hækka skatta. Auðvitað væri ákjósanlegt að geta haft skattheimtuna sem minnsta. Það væri ákjósanlegt. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson varar við því að reisa einstaklingsframtakinu skorður. Sjálfsagt er að hyggja að þessu. En við höfum á undanförnum árum verið að stórlækka skatta á efnamenn og fyrirtæki. Árið 1990 var tekjuskattur fyrirtækja yfir 50%. Mig minnir að hann hafi verið 55%. Hann fór niður í 45%, 33%, og er kominn núna niður í 18%. Hvar á að draga þessi mörk? Þetta er spurning um á hverja við ætlum að setja byrðarnar. Ef við viljum ekki setja byrðarnar á efnamenn, fyrirtæki, þá sem eiga stóra reikninga á bankabókum, þá er ekki annarra kosta völ en að skattleggja hinn almenna launamann. Viljum við það? Viljum við frekar fara þá leið? Þetta er spurning um pólitík, um pólitíska forgangsröðun.

Hér hefur aðeins verið vikið að leikskólamálum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hrósaði Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sérstaklega fyrir að hafa lagt fram frumvarp og barist fyrir því að gera leikskólann gjaldfrjálsan og lýsti yfir stuðningi Samfylkingarinnar við það efni. Okkur reiknast til að þessi skattbreyting, þessi skattkerfisbreyting sem mundi skila um 3 milljörðum inn í ríkissjóð — ekki er hægt að segja með neinni vissu hve mikið það er. Þar liggur að baki svona ákveðinn líkindareikningur — mundi auðvelda okkur eða gera okkur kleift að gera leikskólann gjaldfrían. Sveitarfélögin fá tæplega 3 milljarða, 2,8 milljarða held ég hafi verið, í tekjur af leikskólagjöldum. Það munu vera 2,8 milljarðar. Okkar tillaga er að ríkið komi þar inn sveitarfélögunum til hjálpar og við höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um það efni.

Ég nefni þetta hér í því samhengi sem þetta tekjuskattsfrumvarp okkar er því það þarf náttúrlega að vera samræmi í því hvernig menn annars vegar krefjast úrbóta sem kosta peninga og hins vegar þess að afla teknanna til að framkvæma. Menn þurfa að vera sjálfum sér samkvæmir í því efni. Þetta er framlag okkar í þá umræðu.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka þessa góðu umræðu, málefnalegu umræðu sem hefur farið fram um þetta þingmál. Að síðustu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.