131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:38]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Það fer vel á að ræða geðheilbrigðismálin nú í tengslum við alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn sem var um síðustu helgi. Hann var að þessu sinni helgaður tengslum milli líkamlegrar og andlegrar heilsu en það var franski heimspekingurinn Descartes sem skipti þessu tvennu á sinni tíð, líkamanum og sálinni. Því tölum við gjarnan um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og þar séu skýr skil á milli. Auðvitað er þetta að einhverju leyti gert til einföldunar og til að skilgreina heilsu. En mér virðist að nú sé að myndast sterkur og sameiginlegur skilningur á því að líkamlegt og andlegt heilbrigði verði ekki aðskilið. Enginn býr við heilbrigði nema hann sé hraustur bæði andlega og líkamlega.

Áður en ég sný mér að því að svara spurningum hv. 4. þm. Reykv. s. beint er rétt að nefna nokkur grundvallaratriði varðandi þjónustuna sem við veitum á þessu sviði. Það er brýnt að hafa hugfast að hér er almennt boðið upp á fleiri sjúkrarúm fyrir geðsjúka en annars staðar. Lyfjameðferð er hér meiri og almennari í mörgum greinum en annars staðar og hér eru fleiri læknar á hvern mann. Þetta þýðir almennt talað að grundvöllurinn fyrir góða geðheilbrigðisþjónustu er fyrir hendi, og hann hef ég og ríkisstjórnin kappkostað að treysta undanfarin missiri.

Alhæfingar eiga síst við þegar geðheilbrigðismálin eru annars vegar. Sjúkdómarnir eru margir, aðstæður einstaklinganna mismunandi og mikilvægt að hafa hugfasta nauðsyn fjölbreytilegra úrræða. Fyrir utan að standa vel að rekstri hinna hefðbundnu geðdeilda og tryggja með því hefðbundin úrræði sem gert hefur verið er afar brýnt að hlúa að því sérstaklega sem verið er að gera utan þess sem hefðbundið gæti talist. Á þetta höfum við lagt áherslu undanfarin missiri. Við erum að tala um mjög fjölbreytilegan hóp sjúklinga og við höfum verið að bregðast við með því að sníða meðferðarúrræðin að fjölbreytilegum þörfum sjúklingahópsins auk þess að leggja áherslu á að gera geðsjúkum kleift að búa við eðlilegar aðstæður úti í samfélaginu. Á þessu tvennu hefur stefnan í geðheilbrigðismálum hvílt.

Hv. 4. þm. Reykv. s. spyr um viðbrögð við vaxandi þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu. Hér skulu tilfærð nokkur dæmi. Útgjöld vegna geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa verið aukin, einkum til barna- og unglingageðdeildarinnar sem þýðir að starfsemin er að aukast. Útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna geðlyfja hafa aukist umtalsvert sem þýðir vonandi betri meðferð. Veruleg aukning hefur orðið á einkastofum geðlækna utan spítala. Ítrekað hefur verið gripið til sérstakra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem við geðsjúkdóma eiga að stríða. Hér eru nokkur dæmi.

Árið 2002 runnu 40 millj. til sérstaks átaks á sviði geðheilbrigðismála sem skipt var á milli sjúkrahúsa og heilsugæslunnar. Í fyrra runnu 10 millj. kr. sérstaklega til þess að reka svokallað hreyfanlegt fagteymi sem fylgja átti eftir alvarlega geðsjúkum eftir útskrift af sjúkrahúsi. Á fjáraukalögum sama árs runnu 27 millj. kr. til að efla sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni. Á sömu fjáraukalögum var samþykkt 45 millj. kr. stofnframlag til að stækka barna- og unglingageðdeildina. Á fjárlögum 2004 runnu 11 millj. sérstaklega til þess að reka fagteymið sem áður er getið, 20 millj. til að hefja rekstur sérhæfðrar deildar fyrir alvarlega geðsjúka og 90 millj. í stofnframlag vegna deildarinnar, 76 millj. sérstaklega til að efla enn starfsemi BUGL og 20 millj. til að efla geðheilbrigðisþjónustuna í heilsugæslunni, einkum við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Í frumvarpi til næsta árs eru svo 42 millj. til að efla geðheilbrigðisþjónustuna í heilsugæslunni, 12 millj. til að mæta bráðavanda alvarlega geðsjúkra og 64 millj. til að reka sérhæfða deild fyrir alvarlega geðsjúka.

Öll þessi framlög koma til viðbótar þeim miklu fjármunum sem renna til geðheilbrigðisþjónustunnar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þetta er meðal þess sem gert hefur verið til að mæta þörfinni sem hv. 4. þm. Reykv. s. spurðist fyrir um.

Árið 2003 var rýmum á unglingageðdeild fjölgað úr 9 í 11. Tvö þeirra eru ætluð sem neyðarrými samkvæmt samningi BUGL og Barnaverndarstofu. Á barnadeild eru átta rými. Í september 2004 voru 15 börn á bið- eða vinnulista vegna þjónustu á barnageðdeild LSH. Á unglingageðdeild voru 13 börn á slíkum lista. Hér er um að ræða biðtíma sem er styttri en þrír mánuðir. Á BUGL hefur verið lögð vaxandi áhersla á göngudeildarþjónustu. Fyrstu átta mánuði ársins 2003 voru komur á göngudeildina 2.730 en fyrstu átta mánuði þessa árs voru þær 2.980.

Fullyrðingum um að hundruð manna ráfi um götur höfuðborgarinnar án þess að fá viðeigandi meðferð og úrræði vísa ég á bug. Mér er ánægjuefni að geta sagt frá því að um áramótin tekur til starfa ný sérhæfð deild fyrir þá einstaklinga sem gætu verið hættulegir sjálfum sér og umhverfi sínu og notið hafa þjónustu annars staðar. Geðsvið LSH mun annast rekstur deildarinnar og henni verður komið fyrir á Kleppsspítalanum.