131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:43]

Þuríður Backman (Vg):

Frú forseti. Umræða um stöðu geðsjúkra og þjónustu við þá er yfirgripsmikil og því munu mörg mjög mikilvæg hagsmunamál þessa fólks ekki ná inn í stutta utandagskrárumræðu. Læknisfræðileg meðferð er góð hér á landi en þó vantar meira framboð af sjúkrahústengdri þjónustu og fjölbreyttari meðferðarúrræðum utan sjúkrahúsanna.

Biðlistar eru eftir þjónustu á BUGL og Reykjalundi, svo dæmi séu tekin. Eru þeir viðvarandi og valda bæði óþörfum þjáningum og þjóðfélagslegum kostnaði. Sárast vantar þó þjónustu utan sjúkrahúsanna, þjónustu sem tengist heilsugæslunni og félagsþjónustunni. Hvernig stendur á því að enn vantar bæði sálfræðinga og iðjuþjálfa í þjónustu heilsugæslunnar? Hvernig stendur á því að svo erfiðlega gengur að koma á hæfingar- og endurhæfingarþjónustu fyrir geðsjúka og aðra þá sem eiga erfitt með að fóta sig í hraða nútímaþjóðfélags, þjónustu sem sparar þegar á heildina er litið?

Það er von að kallað sé eftir stefnumótun í málefnum geðsjúkra. Verið er að draga úr ríkisútgjöldum og bitnar það ekki síst á heilbrigðisþjónustunni sem verður að draga saman þjónustu eða halda í besta falli óbreyttum rekstri.

Stefna ríkisstjórnarinnar dregur úr möguleikum á að koma á fót aukinni eða nýrri þjónustu og breyttum áherslum því að öll ný starfsemi kallar á fleiri stöðugildi og þau liggja ekki á lausu hjá hinu opinbera í dag. Þá er ljóst að verulegir fjármunir gætu sparast í aukinni og samhæfðri þjónustu opinberra aðila utan sjúkrahúsanna, m.a. með þverfaglegum meðferðar- og þjónustuteymum. Starfsendurhæfingarverkefni Fjölmenntar og Geðhjálpar er gott dæmi um starfsemi sem bæði er fyrirbyggjandi og hefur mikið endurhæfingargildi. Þrátt fyrir mikilvægi þessarar starfsemi hefur hið opinbera ekki tryggt hana fjárhagslega og er hún því öll í uppnámi.