131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:49]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Að mörgu er að hyggja þegar málefni geðfatlaðra komast á dagskrá þingsins. Mig langar að nefna nokkur atriði sem hafa verður í huga við nauðsynlega og tímabæra stefnumótun í þessum málaflokki.

Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert, eins og hér kom fram, er enn þá skortur á heildarsýn og lausnum í málaflokknum. Kerfin vinna enn ekki nægilega saman. Enn er skortur á samþættingu milli ráðuneyta og sveitarfélaga og t.d. ríkir enn óvissa í menntamálum þessa hóps, þá sérstaklega í málum Fjölmenntar í samstarfi við Geðhjálp. Endurtekin óvissa í þessu máli býður heim öryggisleysi fyrir alla aðila. Það er sérstaklega slæmt fyrir þennan hóp því að við vitum vel að mennt er máttur.

Gera verður þarfagreiningu með tilliti til úrræða eins og sjúkrahúsvistunar, neyðarvistunar, eftirfylgni við einstaklinga, búsetuúrræða og endurhæfingar, svo að eitthvað sé nefnt. Skýrari ákvæði þarf í lög um málefni fatlaðra. Þau eru ekki nægilega skýr í dag og yfirsýnina í málaflokknum vantar einnig þar, því er beint til félagsmálaráðherra. Þar ætti heildarsýnin auðvitað að vera.

Efla þarf samstarf milli ráðuneyta félagsmála, dómsmála og heilbrigðis. Það virkar engan veginn eins og er. Það bitnar á málaflokknum og tekur of langan tíma að setja fram lausnir. Enn er t.d. ekki búið að ganga frá samningum við sálfræðinga og félagsráðgjafa í Tryggingastofnun ríkisins en slíkt fer að verða afar brýnt þar sem biðtíminn er langur hjá geðlæknum. Með því væri einnig hægt að efla fyrirbyggjandi úrræði.

Huga þarf að mikilvægi heilsugæslunnar, eins og kom fram. Mikilvægt er að fjölskyldur fólks með geðraskanir séu studdar með öllum ráðum. Við þekkjum biðlistana sem eru að sliga barnafjölskyldur og þrír mánuðir er langur tími fyrir fjölskyldur með börn með veikindi af þessum toga. Sama er upp á teningnum á Reykjalundi. Þar er talað um að hætt sé að skrá á biðlista. Það er ekki nógu gott.

Einnig þarf að skoða lyfjakostnaðinn. Hann er of hár fyrir þennan hóp sem hefur lítið milli handanna. Við þurfum að hefjast handa, vinna saman og taka til í þessum málaflokki.