131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:42]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Okkur er dálítill vandi á höndum að hanna velferðarkerfi sem er réttlátt gagnvart öllum. Það var gert að skyldu 1974 að allir launþegar skyldu greiða í lífeyrissjóði. Síðan eru 30 ár liðin. 1980 var síðan komið á þeirri skyldu að allir landsmenn, stjórnendur og aðrir, ættu að borga í lífeyrissjóði. Það eru komin 24 ár síðan. Núna fyrst erum við þess vegna að sjá fólk sem er að fara á eftirlaun og er með nokkuð þokkalegan lífeyri, samt ekkert of, vegna þess hve tíminn er enn stuttur. Það er reiknað með að menn starfi svona 40–50 ár á vinnumarkaði.

Ég var formaður Landssambands lífeyrissjóða á sínum tíma. Þá var aðalvandinn sá að engin viðurlög voru við því að bregðast skyldunni um að greiða í lífeyrissjóð. Menn töluðu um og gátu reiknað út að um 30–40 þúsund manns sem áttu að borga í lífeyrissjóð gerðu það ekki. Þeir létu borga sér út 6% sem atvinnurekandinn átti að greiða og borguðu ekki 4% í lífeyrissjóð. Svindluðu sem sagt á kerfinu. Fóru ekki að lögum. Þetta er sá hópur manna sem núna stendur frammi hjá Tryggingastofnun og vill fá óskertar bætur og sem hæstar bætur. (Gripið fram í: ... líka stimpla.) ... sem hæstar bætur. Það hefur oft verið talað um að þetta hafi sérstaklega verið sjálfstæðir atvinnurekendur sem þarna stungu 10% í vasann, ávöxtuðu hann væntanlega og eru núna án lífeyrisréttar fyrir dyrum Tryggingastofnunar.

Margir lífeyrisþegar töluðu við mig á þeim árum og enn þann dag í dag um að þeir hafi verið búnir að borga í 40 ár í lífeyrissjóð, þ.e. fern árslaun samtals, en þeir stæðu eiginlega jafnfætis þeim sem hefðu aldrei borgað í lífeyrissjóð. Þingmenn þekkja örugglega að við töluðum um þetta, vegna þess að það er búið að bæta svo kjör aldraðra í gegnum Tryggingastofnun að einstaklingur fær með grunnlífeyri, tekjutryggingu — tekjutryggingu, athugið það, frú forseti — heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót, vel yfir 90 þús. kr. á mánuði, hafi hann engar tekjur annars staðar. Ef hann fær einhverjar tekjur annars staðar þá er upphæðin skert, þ.e. hann fær lágmark 90 þús. kr. á mánuði. Hún er skert bæði vegna tekna og vegna lífeyris úr lífeyrissjóði.

Þetta gerir það að verkum að þeir sem hafa borgað í lífeyrissjóð í fjölda ára eru nánast jafnsettir og þeir sem aldrei greiddu neitt, nánast jafnsettir og þeir sem komu sér hjá því að greiða eða voru aldrei á vinnumarkaði, en þeir eru sem betur fer ekki voðalega margir.

Við verðum að hafa annað sjónarmið í huga, sem er hinn vinnandi maður. Sá sem er að koma börnunum sínum upp á sama tíma, sem kostar heilmikið, koma sér upp húsnæði, sem kostar líka heilmikið og borga skatta og skyldur út um allt. Við megum ekki láta þann sem lifir á bótunum vera með betri lífskjör en þann sem greiðir bæturnar, eða hvað? Það þykir ekki réttlátt. Tillagan gengur einmitt út á það.

Ef við gerum ráð fyrir því að maður sé með 90 þús. kr. úr lífeyrissjóði, t.d. öryrki sem var með 140 þús. kr. og fær lífeyri frá lífeyrissjóðnum. Með framreikningi getur hann vel farið í 90 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Samkvæmt hugmyndunum á að skerða hann um 9 þús. kr. Hann fær sem sagt 81 þús. kr. úr almannatryggingum og 90 þús. kr. úr lífeyrissjóðnum. Hann er með 171 þús. kr. en var með 140 þús. Hann hækkar við að fara á lífeyri. Hvað segja þeir sem vinna eða unnu við hliðina á honum og eru með 140 þús. kr. á mánuði þegar þeir borga. Þeir borga nefnilega Tryggingastofnun með virðisaukaskatti, greiðslum og sköttum yfirleitt. Þeir sem eru með 140 þús. kr. á mánuði standa því undir bótum upp á 170 þús. kr. samkvæmt tillögunni. Þetta er ekki nógu sanngjarnt. (Gripið fram í.) Þeir eru að vinna, frú forseti, þeir eru að koma upp börnunum sínum og koma sér upp húsnæði. Þeir eiga ekkert að bíða eftir því hvað gerist þegar þeir eru orðnir 67 ára. Grundvallarspurning sem mér finnst að við þurfum að velta fyrir okkur er: Hvað ætlum við að lesta mikið hinn vinnandi mann til þess að menn geti haft það gott í ellinni? Ég held að við séum komin vel yfir mörkin og sérstaklega þegar maður horfir á lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna sem eru ógreiddar um 170 milljarðar. Við síðasta kjarasamning grunnskólakennara fyrir þremur árum jukust lífeyrisskuldbindingar almennings um 23 milljarða, sem hinn vinnandi maður verður að greiða að sjálfsögðu. Þetta þarf líka að hafa í huga.

Við þurfum að hafa í huga að þeir sem borguðu fern árslaun í lífeyrissjóð alla tíð, 10% launa í 40 ár, séu ekki hlunnfarnir og tillagan er góð fyrir þá. Við þurfum hins vegar líka að hafa í huga að sá sem vinnur í dag og borgar lífeyri almannatrygginga sé ekki með lakari lífskjör en sá sem þiggur bæturnar. Það gerir tillagan ekki. Hún nefnilega gerir það að verkum að mjög margir geta verið með lakari laun, sérstaklega lágtekjufólk, með lakari lífskjör en þeir bótaþegar sem þeir greiða.

Mér er bent á að það sé ekki lengur til sérstök heimilisuppbót. Maður man ekki allar þessar breytingar og öll þessi nöfn.

Menn þurfa að skoða alla þætti málsins, að við séum ekki að refsa þeim sem borga í 40 ár í lífeyrissjóð, sem við gerum í dag, þeir fá lítið fyrir sinn snúð fyrir þessi fern árslaun vegna þess hve bætur almannatrygginga eru orðnar háar. Hins vegar þurfum við að athuga að þeir sem vinna og greiða bætur almannatrygginga með sköttum sínum séu ekki verr settir en hinir sem þiggja bæturnar. Það er mjög mikið umhugsunarefni.