131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[15:12]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þær undirtektir við það mál sem við höfum hér verið að ræða, um að tryggja ellilífeyrisþegum lágmarkslífeyri sem væri þá verulega hærri en hann er í dag. Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan vil ég með leyfi forseta fá að vitna í bréf frá Landssambandi eldri borgara sem okkur þingmönnum voru send. Þar segir, með leyfi forseta:

„Greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega fylgja ekki lengur lágmarkslaunum. Greiðslur almannatrygginga fylgdu áður launaþróun lágmarkslauna í landinu en með lögum frá 1995 var þessu breytt. Þannig var hækkun ellilífeyris og tekjutryggingar í takt við þróun lágmarkslauna þar til gliðnun byrjar við gildistöku laganna og mismunurinn eykst ár frá ári þótt tekist hafi að stöðva aukningu þessa mismunar tímabundið árið 2003. Bætur í dag ættu að vera 16.248 kr. hærri á mánuði ef þessu hefði ekki verið breytt,“ segir í þessu bréfi.

Það hefur líka komið fram í umræðunni að mikill fjöldi ellilífeyrisþega tekur óskerta tekjutryggingu. Ég held að hv. þm. sem var síðust í ræðustól á undan mér hafi sagt að 40% væru með óskerta tekjutryggingu. Það þýðir þá að þá eru tekjur viðkomandi ellilífeyrisþega til viðbótar við grunnlífeyrinn undir 24.639 kr. á mánuði en það eru jú þær tekjur sem menn mega hafa án þess að tekjutryggingin skerðist. Hins vegar er þá tekjutryggingaraukinn auðvitað horfinn sem og heimilisuppbótin.

Ef við skoðum einstök dæmi í þessu ferli þá sýnist mér, miðað við það sem ég var að skoða á vef Tryggingastofnunar ríkisins, að ef einstaklingur hefur ekkert annað en bætur, hvorki tekjur né lífeyristekjur, þá sé lágmarkssamsettur lífeyrir slíks tryggingaþega 83.440 kr. á mánuði. Síðan getur hann sótt um ákveðnar viðbótarbætur. Það fer eftir mati hvort hann fær þær. Þá er mögulegt að hann geti farið að nálgast um 90 þús. kr. eins og ég held að hv. þm. Pétur Blöndal hafi nefnt áðan. En þá verður að sækja sérstaklega um sérstakar viðbætur. Þetta er það sem almennt stendur til boða ef menn hafa engan lífeyri og engar tekjur, algjört lágmark.

Ef menn hins vegar hafa einhverjar tekjur, hvort sem það eru lífeyrissjóðstekjur eða aðrar atvinnutekjur, þá geta þeir haldið fullri tekjutryggingu þó þeir hafi 24 þús. kr. í tekjur. Eftir það byrjar tekjutryggingin að skerðast, þ.e. um 45% af tekjutryggingunni miðað við þá upphæð sem kemur umfram þá tölu.

Með þessari tillögu okkar erum við að leitast við að hækka rauntekjur þeirra sem lægstar hafa lífeyristekjurnar og minnst réttindi eiga í lífeyrissjóðum. En í þessu sama fréttabréfi sem ég vitnaði til áðan var sagt, með leyfi forseta:

„Erfitt er að meta hver meðallífeyrir er frá lífeyrissjóðum en lauslegt mat gefur til kynna að hann sé e.t.v. um 50 þús. kr. á mánuði.” — árið 2003 — „Mjög stór hluti ellilífeyrisþega er því undir þessu marki.”

Því er ekki er óeðlilegt að taka dæmi um tekjur úr lífeyrissjóði upp á 45.860 kr. eins og þeir gera í þessu bréfi. Þeir útfæra það síðan í töflu og sýna hvaða niðurstaða kemur út úr slíku dæmi.

Ég nefndi það áðan að skattleysismörkin eru núna 71.270 kr. minnir mig. Þau ættu að vera tæplega 100 þús., 99.500 og einhverjar krónur ef ég man rétt, ef þau hefðu fylgt sömu viðmiðum og áður. Þar af leiðandi eru mun fleiri farnir að borga tekjuskatt. Það bitnar á ellilífeyrisþegunum. Það liggur alveg í hlutarins eðli að jafnvel sá sem hefur algjörar lágmarksbætur frá Tryggingastofnun, 83–84 þús. kr. er einnig að greiða skatt því skattleysismörkin eru, eins og ég sagði áðan, 71 þús. kr. Lágmarksbæturnar eru því ekki einu sinni skattfrjálsar. Síðan mundu náttúrulega lágmarksbæturnar skerðast ef viðkomandi ellilífeyrisþegi aflaði sér einhverra tekna. Þá byrjuðu að skerðast tekjutryggingaraukinn og heimilisuppbótin og svo koll af kolli alveg þangað til eftir sæti eingöngu grunnlífeyririnn. En jafnvel hann getur horfið ef tekjurnar eru nógu háar. Ef ég man rétt þá byrjar grunnlífeyrir að skerðast við um það bil 134 þús. kr. í tekjur. Bótakerfið er nú þannig hannað að bæturnar ýta öðrum tekjum út. Að vísu er það tekið fram, eins og ég gat um í ræðu fyrir hádegið, að ef um fjármagnstekjur er að ræða þá virka þær ekki nema 50% til skerðingar. Það var nú af öðru tilefni sem ég dró það fram hér í umræðu í morgun undir máli sem var verið að ræða þá.

Ég get tekið dæmi um ellilífeyrisþega sem mundi njóta þess að fullu, hefði 50 þús. kr. út úr lífeyrissjóði og mundi þar af leiðandi engar skerðingar fá vegna 50 þús. kr. eins og tillagan gengur út á, þá yrðu heildartekjur hans í viðkomandi dæmi — miðað við að hann héldi ellilífeyrinum, tæpum 22 þús. kr., tekjutryggingunni, sem er tæplega 42 þús., og tekjutryggingaraukanum, sem er um 22.500 kr. og síðan 50 þús. kr. út úr lífeyrissjóði — þ.e. brúttótekjur um 133 þús. kr. Skattleysismörkin væru eftir sem áður 71 þús. kr. Þannig mundu 62 þús. kr. reiknast til skatts, því eftir sem áður mundi viðkomandi greiða skatt þótt hann væri laus við jaðaráhrifin af skerðingu lífeyristeknanna vegna 50 þús. kr. Af þeim 62 þús. kr. mundi hann borga tæplega 30 þús. kr. í skatt, 38,58%, tæplega 30 þús. kr. Rauntekjur í viðkomandi tilfelli væru því um 103 þús. kr.

Það munar um það að vera kominn rétt yfir 100 þús. kr. í rauntekjur eftir skatta. En eins og dæmið lítur út í dag, miðað við 50 þús. kr., þá sýnist mér að rauntekjurnar yrðu 81 þús. kr. rúmlega. Mismunurinn á milli stöðunnar í dag, þar sem lífeyristekjurnar skerða sérstaka tekjutryggingu, heimilisuppbót og tekjutryggingu um 45%, og þess sem yrði við slíka breytingu sem hér er gert ráð fyrir er rauntekjuhækkun upp á 23 þús. kr. á mánuði. Það er vissulega mikil breyting fyrir viðkomandi ellilífeyrisþega. Rauntekjur hans mundu hækka um einn fimmta. Það væri vissulega mikil breyting.

Ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi haft rétt fyrir sér áðan í umræðunni um þetta mál. Það má auðvitað líta svo á að með þessari framsetningu, að leggja fram þingsályktunartillögu til umfjöllunar hér í þingi og nefnd, séum við að búa til brú á milli kerfa, að tryggja að þeir sem lakast eru settir komist betur af en þeir gera í dag.

Ég ætla samt að endurtaka, svo það liggi skýrt fyrir, að þótt okkar framsetning gangi út frá 50 þús. kr. og síðan 9% aukna skerðingu fyrir hverjar 10 þús. kr. umfram það þar til ákveðnu marki er náð, eða 45%, þá gerum við okkur grein fyrir því að ef málið verður skoðað og sett í samhengi, krufið til mergjar, þá kunni að þurfa að gera ráð fyrir annarri upphæð svo Alþingi í heild sinni geti fallist á málið, þótt það miði að því að bæta lífeyriskerfið og byggja þá brú sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi.

Ég tek einnig undir þau orð hv. þm. Péturs H. Blöndals, að það er vandasamt að hanna lífeyriskerfi. Ég tek undir þau ummæli hans.

Við í Frjálslynda flokknum teljum ekki að málið sem við setjum hér fram sé eini sannleikurinn í málinu. Við teljum hins vegar að með því að reifa það gefist tilefni til þess að skoða það ofan í kjölinn og velta því upp hvernig við getum bætt stöðu þeirra sem lökust lífeyrisréttindi hafa á næstu áratugum þótt vonandi hafi menn það mjög gott eftir árið 2040, ef svo vill vera láta. Þetta mál snýst um að taka á því vandamáli sem núna er til staðar og hverfur ekki sjálfkrafa að mínu mati. Enn þá er fjöldi fólks með lág laun í okkar þjóðfélagi. Sumir geta aðeins stundað takmarkaða vinnu af ýmsum ástæðum. Fólk er heimavinnandi eða í hlutastörfum. Sauðfjárbændur hafa t.d. mjög lág laun og margir að vinna sér inn lítil lífeyrisréttindi.

Það er full ástæða til að skoða sérstaklega stöðuna hjá þeim sem lökust hafa lífeyrisréttindin í þjóðfélaginu þegar þeir komast á elliár. Þessi tillaga gengur út á að bæta stöðu þeirra.

Í skýrslunni Velferð fyrir alla lagði ASÍ til eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Til að jafna þennan mun þarf að beita tekjutengdum lífeyri frá almannatryggingum með frítekjumörkum vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Tekjutengingin þarf að breytast í samræmi við auknar greiðslur frá lífeyrissjóðunum til eftirlaunaþega.“

Þarna er sama hugsun og í málinu sem hér er til umræðu. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Gera verður ráð fyrir að tekjutengdur lífeyrir frá almannatryggingum verði við lýði þar til hið almenna lífeyriskerfi nær fullum þroska.“

Hvenær nær kerfið fullum þroska? Sumir hafa sagt að það verði 2040. Ég dreg það mjög í efa. Ég held að því miður muni alltaf verða til nokkur hópur fólks með lakan lífeyrisrétt sem veitir ekki af því að við lítum til þess að hanna lífeyriskerfið þannig að það taki á þeim vandamálum. Hinir sem betur hafa það geta þá horft til þess að við hlið þeirra verði ekki aðrir þegnar sem hafi það bara talsvert skítt.