131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[15:29]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vitnaði til áðan er bréf sem ég held að öllum í þingflokki mínum hafi borist. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétri H. Blöndal hafi borist það líka. Textinn sem ég las var úr bréfi frá Landssambandi eldri borgara þar sem fjallað er um kaupmátt ráðstöfunartekna og greiðslur almannatrygginga samanborið við þróun lágmarkslauna í landinu.

Ég verð nú að segja að ég held að Landssamband eldri borgara verði að fá að miða við það sem þeir telja eðlilegt að bera saman við í bréfum sínum til okkar.