131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[15:55]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það hlytu að teljast mikil tímamót í samgöngusögu þjóðarinnar og þó víðar væri leitað ef svo fer sem horfir, að frá og með áramótum eða 1. desember leggist reglubundnar og skipulagðar strandsiglingar af við landið, með þeirri undantekningu sem fólgin er í myndarlegu framtaki einkaaðila til að sinna slíkri þjónustu við Vestfirði og þeirri takmörkuðu þjónustu sem er rekin með stuðningi ríkisins og tengist samgöngum við byggðar eyjar við landið. Að því slepptu stefnir í að strandsiglingar leggist af.

Hér er að mörgu að hyggja. Hið fyrsta sem ég nefni er að það er ekki einu sinni svo að öruggt sé að fyrir þessu liggi hreinar samkeppnislegar forsendur, þ.e. óbjagaðar að öllu leyti. Látum það vera ef það væri hrein markaðsleg eða samkeppnisleg niðurstaða að sjóflutningar væru á engan hátt samkeppnisfærir. En það er ekki einu sinni víst að svo sé. Í því sambandi þarf að athuga þá stöðu sem markaðsráðandi fákeppnishringar í flutningum eru komnir í. Það getur verið að þröngt séð frá þeirra sjónarhorni sé hagkvæmara að efla landflutningana og nýta þau tæki sem þar eru. En það er ekki þar með sagt að þjóðhagslegum hagsmunum sé best borgið með því eða að dæmið liti þannig út ef öðruvísi væri í pottinn búið. Jafnvel þótt svo væri teljum við flutningsmenn þessarar tillögu ekki að menn ættu að gefa sér að þar með væri niðurstaðan að engar strandsiglingar ættu að vera við Ísland.

Menn eiga að spyrja sig að því hvaða byggðarlegum, umhverfislegum og öryggislegum markmiðum sé náð ef menn stuðla að því að hér verði strandsiglingar. Á hvers kostnað verður það ef þær verða hér ekki? Það er augljóst að ef strandsiglingar leggjast af þá verður það á kostnað umhverfisins og á kostnað byggðasjónarmiða. Það yrði einnig á kostnað samgönguöryggissjónarmiða, a.m.k. í tvennum skilningi. Samgöngurnar sem slíkar væru með siglingunum bæði fjölbreyttari og öruggari og menn hefðu sjóinn upp á að hlaupa ef landleiðir teppast og öfugt. Auk þess kemur inn í myndina umferðaröryggi á vegunum. Það er tvímælalaust neikvætt að auka enn á þá miklu flota flutningabíla sem streyma um þjóðvegina sem eru víða vanbúnir til að takast á við það verkefni.

Þegar menn lögðu niður Skipaútgerð ríkisins, sem er kannski upphafið að því sem við okkur blasir, þá sagði ég úr þessum ræðustól, ég held að ég muni það rétt, að hvað sem um þessa ákvörðun mætti segja og hve umdeild hún kynni að vera pólitískt og byggðapólitískt þá væri eitt a.m.k. öruggt, þ.e. að hún væri tekin 10–15 árum of snemma vegna ástands vegakerfisins sem enn síður var þá og er ekki enn í stakk búið til að takast á við þetta verkefni með sómasamlegum hætti.

Ef menn vilja líta til þessara raka, sem að mínu mati eru miklu meira en fullnægjandi, þá liggur málið ljóst fyrir. Stjórnvöld, ef þau vilja hafa meðvitaða samgöngustefnu í heiðri, eiga að ráðast í það viðfangsefni að skilgreina þarfir fyrir strandsiglingar, skoða hvað þarf til að koma þeim á og hvaða aðferðir eru þeim vænlegastar. Fyrir liggja miklu meira en nógu haldbær rök til að ráðast í það og það gera aðrar þjóðir allt í kringum okkur.

Aðferðirnar blasa við mönnum. Við flutningsmenn erum ekki að leggja til að endurreisa opinbera skipaútgerð, alls ekki. Það þarf ekki. Hér má nota þær aðferðir sem eru viðurkenndar og margreynt er að standast allar kröfur evrópska samkeppnisréttarins, að skilgreina þjónustuna og bjóða hana út þannig að þeir sem treysta sér til að veita tiltekna þjónustu fyrir lægst endurgjald eða fyrir minnstan stuðning fái verkefnið. Það væri nákvæmlega sama aðferð og er notuð þegar þjónusta við Vestmannaeyjar er boðin út, að lægstbjóðandi í rekstur Herjólfs, sem treystir sér til að halda þar uppi siglingum með tiltekinni tíðni o.s.frv., fær verkefnið. Sama gildir um rekstur ferju við Eyjafjörð, til Hríseyjar og út í Grímsey. Sama gildir um áætlunarflug á þá staði sem þurfa á stuðningi að halda til að halda uppi reglubundnum samgöngum að þessu leyti.

Norðmenn leggja umtalsverða fjármuni í að viðhalda siglingum meðfram sinni strönd væntanlega vegna þess að niðurstaðan er sú að ella mundu þær ekki viðhaldast, a.m.k. af sömu gæðum og þeir vilja hafa. Grænlendingar gera það, Bretar gera það og Evrópusambandið sjálft hefur nýlega boðað að það ætli af þessum sömu ástæðum, umhverfisástæðum, og umferðaröryggisástæðum einkum og sér í lagi að leggja stóraukna fjármuni í að efla á nýjan leik samgöngur og færa meiri flutninga á sjóinn og siglingaleiðir, þ.e. ár og skipaskurði. Og það væri kostulegt ef Ísland, eyja með byggðina dreifða hringinn í kring á ströndinni, sæi ekki ástæðu til þess a.m.k. að huga að þessu máli.

Það er engin deila um að góðar og greiðar samgöngur á landi og flutninganet á landi er nauðsynlegt. Það er enginn að tala um að þetta sé annaðhvort eða. Auðvitað þurfa að vera slíkar leiðir fyrir dagvöru og vöru með takmarkað geymsluþol, létta vöru og vöru sem þarf að komast hratt á áfangastað. En það er ekki þar með sagt að flytja þurfi allt steypustyrktarjárn, þungavinnuvélar, sekkjavöru eða hvað það nú er, sem er alls ekki tímaháð og er ekki háð síðasta neysludegi, allt á landi eða meira og minna framleiðsluvörur landsbyggðarinnar, frystar sjávarvörur, þegar gámur eftir gám eftir gám leggur af stað á flutningabílum um hávetur á norðausturhorni landsins þegar verið er að frysta þar síld og loðnu. Hvaða vit er í því að reyna ekki að hafa þetta með skipulegri og umhverfisvænni hætti þegar það blasir við að við erum á háskalegri braut hvað varðar mikla losun koldíoxíðs eða gróðurhúsalofttegunda og fleira í þeim dúr? Hvort sem við lítum til annarra landa, horfum á samkeppnisreglurnar og bara skilgreinum stöðuna hér þá ber allt að sama brunni. Það er mikil afturför og sérstaklega háskalegt að mínu mati varðandi framtíðarþróunarmöguleika atvinnulífs úti um landið ef þessi samgöngumöguleiki eða samgöngukostur er alls ekki fyrir hendi og það er stór hætta á því að svo verði ef stjórnvöld vakna ekki til meðvitundar um hvað er að gerast. Ef svo fer að engar skipulagðar strandsiglingar eru hér þá hafa menn þær ekki til að reikna með ef þeir eru að skoða mögulega iðnaðarkosti eða annað því um líkt úti á landi. Menn geta þá jafnvel notað það sjálfkrafa og strax sem afsökun fyrir því að það sé tómt mál að tala um að byggja slíka starfsemi upp annars staðar en hér í 101 eða svo gott sem.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að menn takist á við þetta verkefni, í öllu falli skoði það mjög rækilega og komi þá með rökin ef þau eru einhver fyrir því að ráðast ekki í það.