131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:10]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt. Eitt af því sem kæmi augljóslega upp til skoðunar strax í framhaldinu þegar búið væri að skilgreina þjónustuna og ákveða viðkomuhafnirnar væru flutningaleiðir á landi til að fóðra þær hafnir. Það er engin ástæða til að ætla að þær þyrftu endilega að vera eins margar og þær voru áður þegar strandferðaskip skipafélaganna að ég tali nú ekki um Ríkisskip komu nánast inn á hverja einustu höfn. Það er að sjálfsögðu engin ástæða til þess t.d. að strandferðaskip færi að leggja upp að mörgum höfnum við utanverðan Eyjafjörð, svo að dæmi sé aftur tekið þaðan.

Veruleikinn er sá að langflestar hafnir landsbyggðarinnar eru að verða að hreinum fiskihöfnum og flutningaskipakomur þangað eru mjög óreglulegar og fyrst og fremst til þeirra hafna sem af og til senda frá sér stórfarma, þ.e. fiskimjöl eða annað því um líkt. Gámarnir fara í stórum stíl orðið á landi.

Ég þakka formanni samgöngunefndar fyrir góð orð um að samgöngunefnd muni skoða þetta mál vel. Ég þóttist reyndar alltaf vita að það mundi koma við viðkvæma taug, snerta streng í brjósti hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þegar í hlut ættu störf sjómanna. Ekki veitir af að reyna að efla eitthvað á nýjan leik hina íslensku farmannastétt og við skulum gefa okkur að á tveimur strandferðaskipum sem þjónuðu ströndinni og sigldu hvort á móti öðru, t.d. með vikulegri áætlun, yrði góð stétt íslenskra farmanna.

Ég held að það sé geysilega mikið að vinna með því að skoða hvort ekki sé hægt að koma þessu á og ef sú þjónusta, það merka framtak við Vestfirðina stendur undir sér á þann hátt sem það er rekið í dag sjáum við að það hlýtur að vera hægt með tiltölulega litlum stuðningi að útfæra slíkt net þannig að það taki til landsins alls. Mér segir svo hugur að um leið og slíkt strandsiglingakerfi með reglubundinni áætlun væri búið að festa sig í sessi mætti, ef það yrði ekki strax sjálfbært eða fljótlega alveg sjálfbært, halda því úti með kannski 50–100 millj. kr. stuðningi ríkisins á ársgrundvelli á grundvelli útboðs.