131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum afar brýnt mál sérstaklega í ljósi þess, eins og fram hefur komið í ræðum fyrri ræðumanna, að strandsiglingarnar í kringum landið eru nánast aflagðar með tilliti til flutninga. Sú sem hér stendur vill halda því fram að það séu ekki bara umhverfisleg, byggðaleg eða öryggisleg sjónarmið sem þar með séu í uppnámi heldur ekki síður menningarleg sjónarmið. Að minnsta kosti naut ég þess í ríkum mæli í bernsku minni að sigla með föður mínum, sjómanninum, á ströndina aftur og aftur og vil meina að sú menning sem hefur náðst að viðhalda til þessa dags við hafnir strandbæjanna okkar sé í húfi líka með því að flutningar á sjó eru nánast aflagðir. Af þeim orsökum snart það kannski streng í hjarta mínu þegar ég föstudaginn 1. september árið 2000 klippti út forsíðufrétt úr dagblaðinu Degi, sem kemur ekki lengur út og er kannski tímanna tákn, en fréttin hljóðaði svo með leyfi forseta:

„Ellefu vörubílar taka við af Mælifellinu.“ — Ellefu vöruflutningabílar taka við af Mælifellinu, og svo segir auðvitað í undirfyrirsögn: „Landsbyggðamenn óttast frekari byggðaröskun í kjölfar þess að Samskip hefur hætt strandsiglingum. Akureyrarhöfn tapar stórfé og álag á þjóðvegina eykst.“ — Þetta sagði dagblaðið Dagur föstudaginn 1. september árið 2000.

Eftir að þessi frétt birtist og eftir að Mælifellið lauk siglingu sinni í kringum Ísland með vöruflutninga í þágu landsbyggðarinnar hefur sigið enn á ógæfuhliðina þar sem Eimskip er nú líka hætt. Ég verð að segja að þau sjónarmið sem ráða því að skipafélögin hafa ákveðið að hafa þennan háttinn á eru að mörgu leyti skiljanleg, í fyrsta lagi vegna þess sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gat um í sinni ræðu, það er fljótvirkara kerfi að nota vegina og landflutningana. Við erum í auknum mæli að flytja dagvöru á milli staða og það skiptir verulegu máli að fólk fái hana án þess að þurfa að bíða eftir henni.

Hins vegar verður líka að segjast eins og er að ríkisvaldið hefur ákveðna ábyrgð í þessum efnum og ríkisvaldið hefur ekki staðið þannig undir ábyrgð sinni að þykja megi sómi að. Við höfum við borðin okkar, þingmenn, verið að fara yfir samgönguáætlanir ríkisstjórnarinnar. Við höfum í höndunum afar merka skýrslu frá starfshópi sem samgönguráðherra skipaði á sínum tíma sem fjallaði um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Allar þær skýrslur og yfirlýsingar sem við höfum frá ríkisstjórninni varðandi samgöngur stefna í eina átt. Við ætlum okkur að reyna að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Það er ásetningur okkar í öllum þessum skýrslum og yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að gera það.

Ef hugur fylgdi máli í þessum efnum hefði ríkisstjórnin tekið til meðferðar það mál sem við hér fjöllum um. Það er ljóst og segir meira að segja í ýmsum af þessum skýrslum — ég get bara vitnað beint í skýrsluna um gróðurhúsalofttegundirnar en þar segir að í samanburði við flutninga á vegum séu flutningar á sjó taldir vænlegri kostur með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Þar segir reyndar líka að eðli skipaflutninga valdi því að miklu magni sé safnað saman til flutninga í stórum flutningaeiningum og það sé kannski líka helsti veikleiki sjóflutninga því að þeir séu mun seinvirkari en flutningar á vegum. Ríkisstjórnin er sér fullkomlega meðvituð um að það er ódýrara og hagkvæmara í umhverfislegu tilliti að flytja vörur sjóleiðina en landleiðina. Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að grípa til þeirra aðgerða sem er í hennar valdi að gera og þá vil ég fyrst og fremst nefna þungaskattinn sem að sjálfsögðu ætti í því umhverfi sem við búum í og miðað við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið að endurspegla kostnaðinn við flutningana.

Sannleikurinn er sem sagt sá að menn hafa hikað við að setja, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson orðaði það áðan, hið rétta verð á ekinn kílómetra í þungaskattskerfi okkar og þar af leiðandi endurspeglar þungaskatturinn ekki kostnaðinn við slitið á vegunum og slitið á umferðarmannvirkjunum almennt. Að sjálfsögðu ætti þungaskatturinn að hækka í samræmi við það slit sem stórir bílar valda.

Ríkisstjórnin hefur líka skirrst við að hækka aðflutningsgjöldin og vörugjöldin af stærri bílunum. Ríkisstjórnin hefur hvatt til aukinnar notkunar stórra bíla og hún hefur með þessu sleifarlagi sínu varðandi þungaskattinn hvatt til þess að landflutningar taki við af sjóflutningum. Ríkisstjórnin þarf ekki að vera neitt undrandi yfir því ástandi sem við nú horfum fram á. Það er í hennar valdi að bregðast við og auðvitað ætti hún að gera það af manndómsskap eins og yfirlýsingar hennar í samgönguáætlunum og öðrum stefnumarkandi plöggum gefa til kynna. Má þar t.d. nefna ritið Velferð til framtíðar sem fjallar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi en þar gefur ríkisstjórnin út yfirlýsingar sem lúta að sjálfbærum samgöngum og telur sig vera meðvitaða um hvað þurfi að gera í þeim efnum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem við erum skuldbundin til að gera.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi í ræðu sinni erindi Tinnu Finnbogadóttur sem haldið var á málþingi Landverndar og Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands á föstudaginn var. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sitja þetta málþing og hlusta á erindi Tinnu Finnbogadóttur sem er nemi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Hún fjallaði einmitt um landflutninga og strandflutninga og það var afar athyglisvert að hlusta á hana. Í máli hennar kom fram að kostnaðurinn við að flytja eitt tonn með skipi væri um 6 þús. kr. en að sama skapi um 30 þús. kr. þegar reiknaður væri flutningskostnaður á hvert tonn á stórum flutningabíl. Þar hafði Tinna reiknað inn í alla þætti, líka slitið á vegunum, alla þá þætti sem í raun og veru samfélagið þarf að borga fyrir flutninginn á þessum þungu förmum um landið þvert og endilangt.

Það er alveg ljóst að það þarf að grípa hér til aðgerða og best væri auðvitað að þær aðgerðir væru í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar svoleiðis að við þyrftum ekki að standa hér oftar en þörf krefur til að halda því fram að það sé tvískinnungur í stefnu stjórnvalda hvað þetta varðar. Ég tel að stjórnvöld hafi í hendi sér möguleikana á því að endurreisa strandflutningana. Auðvitað kann að vera að við séum orðin of sein, við hefðum átt að nota tækifærið meðan færi gafst en ég trúi því þó að enn sé hægt að grípa eitthvað í taumana.