131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil ekki frekar en hv. þingmaður ástæðu þess að atvinnurekendur hafa kosið að nota landflutningana í auknum mæli og leggja af flutninga með skipum. Ég skil satt að segja ekki hvers vegna það er þar sem það er hagkvæmara að fara sjóleiðina eins og hv. þm. hefur getið um í ræðum sínum. Einfalt reikningsdæmi.

Ég velti fyrir mér ábyrgð atvinnurekenda annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Eitt af því sem ríkisstjórnin hefur tekið á sig og viðurkennir í þeim plöggum sem fjalla um sjálfbærar samgöngur er það að breyta hugarfari. Ríkisstjórnin hefur ákveðið það og gefið út yfirlýsingar um að það þurfi að breyta hugarfari fólks, og þá líka atvinnurekenda. Þá vinnu sem fólgin er í því að breyta hugarfari hefur ríkisstjórnin ekki sett í gang. Að því leytinu til segi ég enn og aftur: Ríkið ber þarna ákveðna ábyrgð. Við berum þá ábyrgð varðandi þungaskattinn að hann endurspegli þann kostnað sem er í raun og veru af akstri þessara stóru flutningabíla um þjóðvegina og ríkið ber líka þá ábyrgð að halda úti ákveðnum áróðri fyrir stefnumiðum sínum sem eru fólgin í sjálfbærum samgöngum.