131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:36]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegi forseti. Þeirri ágætu og málefnalegu umræðu sem hér á sér stað ber að fagna. Í rauninni er það afskaplega merkilegt, svo merkilegt að fleiri en einn þingmaður hafa haft orð á því að þetta sé sérstaklega málefnaleg umræða og vissulega er mikið til í því og allt of sjaldan gerist það að umræða nær að verða svona fagleg og afslöppuð eins og raun ber vitni nú. Oftar en ekki verða þetta skylmingar gjarnan á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þessari umræðu ber því að fagna.

Hér er á ferðinni afskaplega merkilegt og stórt mál og ber að lýsa ánægju með fram komna þingsályktunartillögu um það. Tilefnið er náttúrlega ærið eins og hér hefur komið fram í umræðunni að þann 1. desember nk. hætta sjóflutningar á hafnir í kringum landið og eftir það eru allir vöruflutningar komnir upp á vegi landsins. (Gripið fram í: Nema til Vestfjarða.) Nema til Vestfjarða, eins og hér er kallað fram í réttilega. Þetta er auðvitað mjög stórt mál sem er mikilvægt að skoða nákvæmlega því að afleiðingarnar eru nokkuð margvíslegar. Má þar í fyrsta lagi benda á hinar umhverfislegu afleiðingar að útblástur mun verða allt að sjöfalt meiri en ef sambærilegir flutningar færu fram á sjó og með hliðsjón af Kyoto og því að við viljum halda umhverfi okkar tiltölulega hreinu þá hlýtur það að vera umhugsunarefni.

Í annan stað má draga fram hin byggðalegu áhrif af þessu. Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum ýmissa fyrirtækja á landsbyggðinni sem eru að hasla sér völl og eru háðir því að fá aðföng og koma vöru sinni á markað, sem er á höfuðborgarsvæðinu, að hinn aukni kostnaður kunni að ríða þeim að fullu og þar með standa þessir mikilvægu sprotar í atvinnulífi landsbyggðarinnar í hættu og kunna að veikja landsbyggð.

Þar af leiðandi erum við komin að þriðju ástæðunni sem eru hinar efnahagslegu afleiðingar sem af þessu hljótast ef þetta er dýrari leið. Ef þetta veikir stoðir atvinnulífs þá hefur það auðvitað bein og óbein áhrif á efnahagslíf okkar. Síðast en ekki síst ber að draga öryggissjónarmiðið fram, vaxandi umferð á vegum sem ekki voru hannaðir með hliðsjón af þessari miklu og vaxandi umferð stórra ökutækja, svo ekki sé minnst á þann kostnað sem það hefur í för með sér gagnvart skattborgurum má segja, því að þessir stóru bílar ekki einungis slíta yfirborði heldur líka undirlagi vega margfalt á við venjulega fólksbíla svo skiptir tugum og það er auðvitað kostnaður sem skattborgarar standa frammi fyrir. Afleiðingar þessarar þróunar eru því mjög alvarlegar fyrir samfélagið í heild sinni.

Hvað veldur þessari breytingu? Það er í rauninni mjög erfitt að skilja það eins og fram hefur komið í umræðunni. Ef þessi leið er dýrari af hverju leita menn þá ekki að hinum ódýrustu lausnum? Mjög oft heyrist sem svar við þessari spurningu að það sé krafa markaðarins, að markaðurinn þurfi á dagvöru að halda. Vissulega gildir það um suma vöruflokka svo sem matvöru, dagblöð og því um líkt og verður ekkert undan því vikist. Þá má líka benda á að sú þróun hefur orðið og að sumu leyti jákvæð fyrir atvinnulífið í sjávarbyggðum að ferskfiskframleiðsla hefur verið að aukast þar sem menn gera út á flugfisk svokallaðan og þurfa að koma afurð sinni sem fyrst á Keflavíkurflugvöll. Þar getur flutningurinn ekki tekið marga daga þannig að það eru sannarlega rök, en það gildir hins vegar ekki um nærri allar vörur sem fara af landsbyggðinni og hingað eða út á landsbyggðina. Það er því mjög erfitt að átta sig á af hverju þróunin verður með þessum hætti. Þá hljótum við að spyrja um hver lausnin sé. Hún er vissulega ekki einföld og eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að lýtur þetta að viðhorfi. En hvernig á að breyta viðhorfi heillar þjóðar? Það gerir auðvitað engin ríkisstjórn, það er almennt átak en ég hef mesta trú á að það gerist með umræðu eins og hér fer fram og upplýsingum og fræðslu. En hvernig ætlum við að leysa þetta?

Ríkisútgerð hefur verið nefnd en ef við horfum raunsætt á það er ekki almennur áhugi á því að taka upp ríkisútgerð eins og hér var. Umhverfið hefur þannig breyst. Fara útboðsleið eins og felst í þessari þingsályktunartillögu og hér hefur verið bent á af hálfu þingmanna Vinstri grænna, að ríkisvaldið leggi ákveðna peninga til og bjóði síðan verkið út. Það er svo sem ein leið. Ég hef hins vegar trú á því að eftir 1. desember muni skapast þau skilyrði að framtakssamir einstaklingar sjái sér viðskiptatækifæri í þessu alveg eins og hefur gerst á Vestfjörðum, með Jaxlinn, þar sem framtakssamur einstaklingur fjárfestir í ágætu skipi sem hefur staðið sig með prýði. Ég trúi því að sá grundvöllur miðað við þörfina sem er úti á landi muni skapast. En það er eins og hér hefur verið bent á bundið ýmsum þáttum og ekki síst því að fá atvinnurekendur úti á landsbyggðinni og þá sem þurfa á slíkri þjónustu að halda til að standa svolítið saman. Það er auðvitað ákveðið lykilatriði því að það eru þeir sem eru þá kaupendur þjónustunnar og þurfa þá að standa saman.

Menn geta rætt um stjórnvaldsaðgerðir og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir velti því upp að setja mætti þennan kostnað inn í þungaskattinn, en þá stangast það auðvitað á við það sem menn hafa talað um byggðastefnu. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur verið ötull talsmaður þess að leggja meiri skatt á þessa þyngri bíla því að þeir slíti meira. Fyrir því eru efnisleg rök en afleiðingar þess eru þá ekki síður þær að kostnaður fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni yrði enn meiri þannig að málið er að sjálfsögðu langt frá því að vera einfalt. Skattlagning er ein leiðin til að stýra þessu en hefði þessi neikvæðu áhrif.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég er í samgöngunefnd og tek undir með hv. formanni nefndarinnar, Guðmundi Hallvarðssyni, að það verður spennandi í rauninni fyrir nefndina að glíma við þetta úrlausnarefni því ég held að það sé þverpólitískur vilji fyrir að koma einhverri breytingu þarna á þó að lausnin sé á engan hátt einföld. En þetta er verðugt verkefni fyrir nefndina og trúi ég að hún muni finna hina skynsamlegustu lausn í málinu.