131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:53]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að þetta gerist en ég rifja upp umræðurnar sem fram fóru 1992. Þá trúðu menn því að hér yrði bullandi samkeppni milli Samskipa og Eimskipafélagsins. Nú liggur niðurstaðan fyrir. Strandsiglingarnar eru að leggjast af vegna þess að fyrirtækin sjá sér ekki hag í því að reka þessa starfsemi ekki endilega vegna þess að hún geti ekki haft hagnað í för með sér heldur vegna þess að það er hægt að fjárfesta annars staðar fyrir enn þá meiri hagnað, hugsanlega á erlendri grundu. Það er þetta sem er að gerast. Og þá þarf samfélagið að koma inn í myndina.

Fyrr á tíðum var höfðað til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja og þeirra sem stýrðu þeim. Það var talað um Eimskipafélagið sem óskabarn þjóðarinnar o.s.frv. Nú erum við hætt að gera þessar kröfur til fyrirtækjanna sem er umhugsunarefni í sjálfu sér og kannski svolítið áhyggjuefni líka. En það er á þessum forsendum sem við leggjum til að ríkið og við öll komum sameiginlega að þessu máli.