131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[17:04]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því sem fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar og ábendingum hans um þjóðveg 1. Það er sá vegur sem við búum við og hann þurfum við að bæta. Því erum við innilega sammála. Við erum einnig sammála um að mörg svæði landsins búa enn við ófremdarástand í samgöngumálum. Það er kannski ekki við hæfi að nefna einstök svæði en auðvitað má nefna Suðurfirðina á Barðaströnd og eins norðausturhornið sem ég þekki nokkuð vel. En flutningarnir munu fara um þjóðveg 1 innan tveggja mánaða. Því nefni ég hluti eins og Bakkaselsbrekkuna. Menn setja sig í stórhættu að fara með gríðarþunga bíla niður brekkuna, svona þröskuld á veginum eins og gert er. Þetta er farið að velta á tugum tonna og hagkvæmnin kallar vitanlega alltaf á að bílarnir séu þyngri og stærri. Ég held því að hvað brýnast verk fyrir yfirvöld samgöngumála sé að tryggja veginn og þá flutninga sem um hann fara að þeir verði greiðir og öruggir.