131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Íþróttaáætlun.

11. mál
[17:21]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að nokkuð sé til í því hjá hv. 1. flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, Gunnari Örlygssyni, að fjárfesting í íþróttum og reyndar í hollu og uppbyggjandi tómstundastarfi sé fjárfesting til framtíðar sem skili sér í ávinningi og hagnaði, félagslegum og hugsanlega einnig fjárhagslegum.

Við erum öll sammála um að börn og unglingar eigi að búa við jafnrétti til náms, til skólagöngu og til náms. Á síðustu árum hefur fléttast inn í þá jafnréttishugsun umræða um uppbyggjandi tómstundastarf. Þá er litið til íþróttanna. Menn hafa litið til margvíslegs listnáms og bent á þar sitji ekki öll börn og unglingar við sama borð. Ég hef ekki á takteinum upphæðirnar sem fólk greiðir fyrir listnám barna sinna en ég gæti trúað að það hlaupi á 50–100 þús. kr. á ári sem fólk borgar fyrir myndlistarnám, fyrir tónlistarkennslu o.s.frv. Einnig er talsverður tilkostnaður við íþróttir.

Eins og fram kom í máli hv. þm. veita ríki og sveitarfélög íþróttahreyfingunni margvíslegan stuðning. Ég er sammála honum og öðrum flutningsmönnum þessarar tillögu um að það er mikilvægt að koma þeim stuðningi í markvissari farveg en nú er við lýði. Út á það gengur þetta þingmál.

Mig langar til að gera eina athugasemd eða fyrirvara við málið og ætla að reifa það lítillega, þ.e. varðandi þá hugmynd að ívilna þeim fyrirtækjum skattalega sem veita stuðning við íþróttahreyfinguna. Ég er ekki viss um að ég sé fylgjandi því að fara þá leið. Menn hafa einnig rætt þetta varðandi stuðning við listir, að veita skattaívilnun til fyrirtækja sem styðja listamenn með fjárframlögum. Ég hef ákveðnar efasemdir um þá leið.

Við erum í raun farin að ganga ansi langt út á þá braut að fyrirtæki og fjármálamenn stýri menningar- og listalífi þjóðarinnar. Það sjáum við reglulega auglýst rækilega í fjölmiðlum þegar forstjórar stöndugra fyrirtækja, fyrirtækja sem eru aflögufær, eru orðnir veitendur gagnvart listunum og menningunni. Ég lasta það ekki þegar þeir sýna myndarskap í þessum efnum en við skulum ekki gleyma því að valdið, stefnumótandi ákvörðunarvald, er að færast á hendur þessara aðila. Það er að færast og hverfa úr greipum okkar sem störfum í þessum sal, á þinginu, yfir á handhafa fjármagnsins. Ég er ekki fylgjandi þeirri þróun og vil vara við því að við göngum lengra út á þá braut.

Ég tel að þetta eigi að gerast með almennri skattlagningu og síðan fjárveitingum til íþróttafélaganna, svo við komum aftur að þeim. Það væri fróðlegt að sjá kortlagningu á stuðningnum við íþróttahreyfinguna. En ég tek undir með hv. þm., að það er mjög mikilvægt að fara skipulega í þessa vinnu.

Ég hef stundum sagt frá því að ég gerði mikið grín að því í kringum árið 1990 þegar sett var niður nefnd á vegum samgönguráðuneytisins. Í nefndina voru settir vegagerðarmenn til að reyna að finna út hvers vegna menn legðu vegi, til hvers við hefðum vegagerð. Mér fannst þetta óskaplega fyndið, að menn þyrftu nefndarstarf til að finna þetta út. En það er langt síðan ég hætti að hlægja að þessu. Menn leggja vegi í margvíslegu skyni, t.d. til að komast hratt á milli staða eða til að njóta landslags. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að menn leggja vegi. Það er reyndar nokkuð sem ég tel að við þurfum að ræða betur og við annað tækifæri en í umræðu um íþróttir og stuðning við íþróttahreyfinguna.

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi við meginhugsun þessarar þingsályktunartillögu. Ég vek athygli á því að tveir þingmenn úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru meðflutningsmenn á þingmálinu. Það eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman.