131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Íþróttaáætlun.

11. mál
[17:29]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um íþróttaáætlun sem hv. 1. flutningsmaður Gunnar Örlygsson mælti fyrir og gerði vel og vandlega grein fyrir málinu og þeirri hugsun sem í því felst. Verði tillagan samþykkt, sem við gerum okkur vonir um sem styðjum málið og flytjum, mun æska landsins á komandi árum fá notið þess í ríkum mæli ef sú hugsun sem í ályktuninni felst nær fram að ganga þar sem menntamálaráðherra er falið að undirbúa og leggja fram áætlun um markmið og stefnu ríkisins í íþróttamálum til fimm ára.

Það er einnig ljóst, hæstv. forseti, að þátttaka æskunnar í því starfi og þjálfun sem unga fólkið fær, og verður vonandi betur tryggð með góðum vilja Alþingis ef þessi ályktun nær fram að ganga, mun örugglega einnig veita fólki fram eftir ævinni og þegar það eldist betra líf og betri heilsu, og skilningur á gildi íþrótta og íþróttaþjálfunar ásamt því ungmennastarfi sem því fylgir mun auðvitað fara vaxandi ef þessi áætlun nær fram að ganga.

Það er auðvitað einnig markmið að við viljum tryggja að öll börn hafi jafna möguleika til að stunda íþróttir innan og utan skóla eins og segir í ályktunargreininni. Við teljum, flutningsmenn, að það sé eðlilegt að ætlast til að vinna við slíka áætlun þurfi nokkurn tíma. Því leggjum við til að stefnumótunin komi ekki fram á þessu þingi heldur næsta haust að ári liðnu. Það þarf að vanda mjög til svona verks og vinna það vel og undirbyggja það með eins mikilli samstöðu og unnt er meðal þeirra sem starfa á Alþingi, í stjórnmálaflokkunum, og auðvitað einnig með fulltrúum þeirra sem að íþróttamálum og æskulýðsmálum koma í landinu, íþróttahreyfingunni, sveitarfélögunum, ungmennafélögunum o.s.frv.

Sú þjálfun og samskiptaefling sem sem unga fólkið fær í gegnum íþrótta- og ungmennastarf hefur auðvitað mikið verið unnin af sjálfboðaliðum á undanförnum árum. Það er örugglega hægt að bæta þar í og efla með því að fara þá leið sem hér er lögð til, að búa til sérstaka áætlun sem væri síðan lögð fyrir þingið um þá stefnu sem ríkisvaldið á hverjum tíma vill stefna að í íþróttamálum til næstu fimm ára. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt og mjög gott að fara í málið með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Mér finnst augljóst að með slíkri íþróttaáætlun ætti að vera auðveldara fyrir ríkið og sveitarfélögin og íþróttahreyfinguna að setja sér markmið, m.a. um það fé sem rennur til málaflokksins frá ríkinu og hvernig tryggt er að þeir fjármunir færu til þeirra verkefna sem menn teldu mest þörf á og menn settu sér markmið bæði í almenningsíþróttum og afreksíþróttum.

Til þess að slíkt megi verða þarf auðvitað að liggja fyrir í íþróttaáætluninni algerlega skýr stefnumörkun sem fylgja fjármunir og skuldbindingar því við vitum mætavel að ef málin eru ekki unnin með þeim hætti á hv. Alþingi verður eftirfylgnin ekki sú sem skyldi. Hún þarf að liggja fyrir helst til langs tíma. Ég held að fimm ár séu alveg hæfilegur rammi til að marka fjármagn inn í fyrir slíka starfsemi. Og þá þurfa menn auðvitað að leggja mat á það gildi sem af því er, hvað fæst út úr því.

Ég tel einboðið að til framtíðar litið muni þjóðin hagnast á því að búa sér til íþróttaáætlun þar sem lagt er upp með samstarf á þessum vettvangi, bæði varðandi fjármögnun og ekki síður íþróttastarfið, þjálfunina og eflingu samskipta ungmenna. Þeir sem þess fá notið munu búa að því alla sína ævi að hafa tekið þátt í íþróttastarfi og fengið til þess leiðbeiningu og þjálfun.

Auðvitað hefur margt gott verið unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar á liðnum árum. Alþingi hefur styrkt slíkt starf á undanförnum árum, m.a. veitt sveitarfélögum og íþróttafélögum vítt og breitt um landið styrki til að halda landsmót, bæði í fullorðinsíþróttum og einnig í unglingaíþróttum. Það er segin saga að þar sem slík stórmót hafa verið haldin hefur íþróttastarfsemi á staðnum notið þess í ríkum mæli. Það hefur iðulega þurft að framkvæma mikið fyrir slík stórmót og leggja í kostnað í sambandi við íþróttamannvirki. Staðirnir hafa svo notið þess að slík mannvirki hafa verið reist þar og búa að því á komandi árum. Þegar slíkar hátíðir eru haldnar eins og keppnisíþróttamótin, verður það líka til þess að efla áhuga unga fólksins í viðkomandi byggðarlögum til að taka þátt í íþróttastarfi og í störfum íþróttahreyfingarinnar sem slíkrar. Ég þekki það ágætlega úr minni heimabyggð, vestur á Ísafirði, og verð var við að þar hefur íþróttahreyfingunni vaxið fiskur um hrygg og fengið betri aðstöðu á liðnum árum og það ber auðvitað að þakka.

Ég held hins vegar að sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér sé mjög þörf til þess að mótuð verði einhver stefna eins og áætlunin gerir ráð fyrir, til fimm ára, og menn reyni að kortleggja hvaða fjármunum við viljum verja í því skyni.