131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:01]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna þess að sl. föstudag var send út fréttatilkynning frá fjármálaráðuneytinu. Efnið var skipan framkvæmdanefndar um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins. Í tilkynningunni segir m.a. að hlutverk nefndarinnar sé að gera tillögur um endurskoðun á stofnanakerfi ríkisins, frá markmiðum um aukna skilvirkni og hagkvæmni og betri þjónustu við borgarana. Í þessa nefnd voru skipaðir fjórir karlmenn tilnefndir af forsætisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra.

Mér fannst skjóta talsvert skökku við í umræðunni um jafnréttismál að fjórir karlar væru skipaðir í þessa nefnd og verð því að spyrja hvort hæstv. ráðherrum finnist þessi málaflokkur ekki koma konum við. Eða hverju sætir þetta? Það verður að segjast að manni er nokkuð brugðið við þessa skipan. Það að á árinu 2004 séum við enn að sjá nýskipaðar nefndir sem eru einungis settar körlum er auðvitað hneyksli.

Í vor samþykkti Alþingi áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum til fjögurra ára. Sú áætlun gengur alls ekki nógu langt að mínu mati en þar stendur þó skýrt að það sé verkefni allra ráðuneyta að jafna kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum. Þetta er lagleg byrjun, svo ekki sé meira sagt, og kemur eins og blaut tuska framan í konur og ekki síður Alþingi sem hefur gert samþykktir sem ráðherrarnir ganga hér þvert á. Ekki vantar konurnar sem eru hæfar til að sitja í þessari framkvæmdanefnd. Það vantar hins vegar sárlega hugmyndaflug ráðamanna í þessu landi til að skipa hæfar konur til slíkra starfa. Þar er kannski komin ástæðan fyrir því að ríkisbáknið þenst út og illa gengur að hagræða hjá ríkinu. Það vantar konurnar.

Ég krefst skýringa af hálfu fjármálaráðherra og annarra þeirra ráðherra sem í hlut eiga á því hvers vegna ekki var farið að jafnréttisáætluninni og hvernig standi á því að á árinu 2004 sé konum enn haldið frá áhrifum í samfélaginu með því að skipa nefndir á vegum ríkisins sem eru einungis settar körlum. Þetta er óþolandi ástand.

Að sama skapi hljótum við sem sitjum á Alþingi að krefjast þess að það verði endurskipað í þessa nefnd og farið að samþykktum Alþingis um jafnari stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera.