131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:06]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra verður einfaldlega að gera betur en hann gerði í svari sínu. Það vill svo til að það er hlutverk Alþingis Íslendinga að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og hann getur illa, hæstv. ráðherrann, kveinkað sér undan því að honum sé bent á að með þessari skipan er þverbrotin sú áætlun ríkisstjórnarinnar að skipa jafnt í ráðherranefndir á vegum ríkisins. Þeir hafa ákveðið það sjálfir, þessir herrar, og þeir geta ekki einu sinni staðið við það sem þeir hafa ákveðið sjálfir.

Það skiptir engu máli þó að einhver tilviljun ráði því að það komi einn frá hverju ráðuneyti. Það segir okkur bara það að það eina sem hæstv. ráðherrum dettur í hug er að skipa karl þegar skipa á einn í nefnd. Hugmyndaflugið er ekki meira og það er ósköp einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að þessi vinnubrögð eru ekki boðleg og þess vegna ber að ræða þau hér á hinu háa Alþingi. Framkvæmdarvaldið verður að hlusta á það sem hér er sagt vegna þess, hæstv. forseti, að það gengur ekki að skipa fjóra karla í tímabundna nefnd á vegum ríkisins með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Það gengur þvert á allt sem þessi ríkisstjórn hefur ákveðið.