131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á að lýsa yfir furðu minni með viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra yfir því að þetta mál skuli tekið upp með þessum hætti á Alþingi Íslendinga. Ég verð að lýsa yfir furðu minni á því að hæstv. fjármálaráðherra skuli mæta í pontu með gömlu klisjuna úr Sjálfstæðisflokknum um að kynferði skipti ekki máli. Ég hélt satt best að segja, virðulegi forseti, að eftir síðustu kosningar hefðu sjálfstæðismenn og ekki síst ráðherrar lært það að auðvitað skiptir kynferði máli. Þetta var klisjan sem dundi yfir flokknum fyrir síðustu kosningar og skilaði þingflokknum því að konum fækkaði stórlega.

Virðulegi forseti. Við erum nefnilega komin lengra en svo að við höldum gömlum klisjum á lofti eins og þeirri að kynferði skipti ekki máli. Er það orðið gamaldags að fara eftir jafnréttisáætlunum? Er það orðið gamaldags að fara eftir landslögum? Ég verð að minna hæstv. ráðherra á að honum er skylt að fara eftir ákveðnum reglum þegar hann framkvæmir vald sitt, ekki bara eftir landslögum heldur líka eftir þeim áætlunum sem hann hefur sjálfur sett sér eða Alþingi hefur sett framkvæmdarvaldinu. Þar með talið er það að jafna skuli hlut kynjanna þegar verið er að skipa í nefndir og ráð.

Valdi ráðherranna eru einfaldlega ákveðin takmörk sett og hæstv. ráðherrar verða að fara að læra það, ekki bara þegar þeir skipa hæstaréttardómara heldur líka þegar þeir skipa í nefndir og ráð.